Kristján þór: „þessar tillögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri vegar“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti tillögur verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinn er varðar endurskoðun á meðal annars skilgreiningu á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Tillögur verkefnastjórnarinnar voru meðal annars að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra. Einnig verði skilgreint hvað felst í raunverulegum yfirráðum yfir sjávarauðlindum. Þá verði Fiskistofu veittar auknar heimildir til að afla gagna hjá sjávarútvegsfyrirtækjum vegna mála sem geta komið upp.

„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu má rekja tilraunir starfsmanna Fiskistofu aftur um rúman áratug til að skilgreina hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ í lögum um stjórn fiskveiða. Það sjá allir að slík staða er óviðunandi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru til þess fallnar að skýra það hvað felst í þessum hugtökum en jafnframt stuðla að skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Það er um leið mikill styrkur í því að starfshópurinn sem ég skipaði í mars síðastliðnum nái samstöðu um þetta flókna mál og gefur vonir um að þessar tillögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri vegar,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ráðherra skipaði verkefnastjórnina í mars 2019 og var henni ætlað að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Tilefnið skipunar verkefnastjórnarinnar var skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu, þar sem fram koma að ráðast þurfi í ýmsar úrbætur til þess að Fiskistofa geti sinnt þeim viðfangsefnum, sem henni er falið samkvæmt lögum, með skilvirkum og árangursríkum hætti. Verkefnisstjórninni er meðal annars ætlað að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

Til að styðja við starf verkefnastjórnarinnar skipaði ráðherra einnig samráðshóp með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi.