Kristín Ýr: „Á þeim tíma­punkti gat ég ekki hætt að gráta“

Kristín Ýr: „Á þeim tíma­punkti gat ég ekki hætt að gráta“

„Hún var 13 mánaða þegar grein­ing lá fyr­ir. Þá kunni hún ekki að sitja, ný­far­in að velta sér og gerði ekk­ert sem jafn­aldr­ar henn­ar kunnu. Ég viðraði áhyggj­ur mín­ar margoft. En í flest skipti var mér bent á að mögu­lega væri ég bara með fæðing­arþung­lyndi, of þreytt og und­ir of miklu álagi. Fyrstu mánuðina klesst­um við alls staðar á veggi með til­heyr­andi álagi á and­legu heils­una.“

Þetta seg­ir Krist­ín Ýr Gunn­ars­dótt­ir, blaðamaður en hún á unga stúlku, Freydísi að nafni. Stúlkan glímir við sjaldgæft heilkenni og í einlægum og áhrifaríkum pistli á Smartlandi opnar hún sig um hvernig hafi verið að standa í sex ára baráttu sem varð nánast til þess að Kristín Ýr missti vitið og að foreldrarnir væru að týnast í kerfinu. Hún segir:

„Þegar Frey­dís var nokk­urra mánaða gekk þetta svo langt að ég sat inni á geðdeild, að bíða eft­ir viðtali, til að láta leggja mig inn. Á þeim tíma­punkti gat ég ekki hætt að gráta. Ég upp­lifði að eitt­hvað væri að barn­inu mínu, en hélt og trúði að þetta væri í raun bara allt í hausn­um á mér.“

Henni var ráðlagt að taka svefnlyf til að hvílast og sem mest af þeim. Það var þá sem hún áttaði sig á að þetta væri ekki lausnin. Við tók löng leið til baka. Hún vissi að undir niðri gæti enginn misst vitið á einni nóttu. Hún segir að loks hafi læknir hlustað og tekið mark á henni. Læknir að nafni Gestur Pálsson. Hann sagði setningu sem hún mun aldrei gleyma:

„Þið um­gang­ist barnið all­an sól­ar­hring­inn. Ef þið haldið að eitt­hvað sé að þá þarf að skoða það.“

Kristín Ýr segir að fólk þurfi að hlusta betur á foreldra. Hún á enn erfitt með að fyrirgefa fólki sem „ýttu henni út af brúninni“ þó svo að það hafi aldrei verið ætlun þeirra.

„Mikið vildi ég óska að það væru til verkferlar sem halda utan um fjöl­skyld­ur í grein­ing­ar­ferli. Þar sem fólk týn­ist ekki og hugað er að heild­inni – heild­inni sem er öll fjöl­skyld­an.“

Krist­ín Ýr ætl­ar að hlaupa sam­tals 100 kíló­metra í fe­brú­ar til að safna stuðningi fyr­ir Ein­stök börn sem og minna á dag sjald­gæfra sjúk­dóma sem er 29. fe­brú­ar. HÉR get­ur þú lagt söfn­un­inni lið.

Nýjast