Kennarar segja að gróflega sé vegið að heilindum, fagmennsku og starfsheiðri þeirra - Lögðu niður störf í dag

Kennarar segja að gróflega sé vegið að heilindum, fagmennsku og starfsheiðri þeirra - Lögðu niður störf í dag

Kennarar og starfsfólk Grunnskóla Seltjarnarness hafa lýst yfir vanþóknun sinni á þeim ummælum og vinnubrögðum sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar/Neslistans létu falla á síðasta bæjarstjórnarfundi bæjarfélagsins. Kennarar og starfsfólk skólans sendu frá sér ályktun eftir kennarafund sem haldinn var í morgun þar sem þau segja að gróflega hafi verið vegið að heilindum sínum, fagmennsku og starfsheiðri sínum.
 
Öll kennsla í skólanum féll niður í dag því að kennarar og stjórnendur sögðust ekki getað treyst sér til að taka á móti nemendum eftir þá gagnrýni sem þau fengu á bæjarstjórnarfundinum.
 
„Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness lýsa vanþóknun á þeim ummælum og vinnubrögðum, meirihlutans og Viðreisnar/Neslistans, sem fram komu í beinni útsendingu frá bæjarstjórnarfundi 27. nóvember síðastliðinn. Þar var gróflega vegið að heilindum, fagmennsku og starfsheiðri stjórnenda og kennara skólans. Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness hafa alltaf verið tilbúnir til að vinna með faglega gagnrýni. Þær fullyrðingar sem fram komu á fundinum og í fundargerð hafa þann eina tilgang að grafa undan skólastarfi og trausti til skólasamfélagsins.“
 

Ástæða þess að kennarar og stjórnendur skólans sendu frá sér þessa ályktun var bókun meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seltjarnarness. Þar lýsti meirihlutinn yfir harmi vegna þeirra deilna sem komið hafið upp vegna námsmats í Valhúsaskóla. Þá voru foreldrar og nemendur skólans beðnir afsökunar í bókuninni á því tilfinningalegu tjóni og óþægindum sem þetta hafði valdið. Foreldrar hafa kvartað undan einkunnagjöf og telja að námsmat sé ekki í samræmi við lög. 

Nýjast