Karl Gauti og Ólafur til liðs við Miðflokkinn

Karl Gauti og Ólafur til liðs við Miðflokkinn

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru reknir úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustursupptakanna og hafa því sinnt þingstörfum óflokksbundnir síðustu mánuði, hafa ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafði áður fullyrt að ástæðan fyrir fundi fjögurra þingmanna Miðflokksins, Karls Gauta og Ólafs á Klaustur bar hafi verið að fá tvímenningana til að ganga til liðs við Miðflokkinn.

Eftir brottreksturinn sögðu Karl Gauti og Ólafur fyrst um sinn að þeir könnuðust ekki við það að fundurinn hafi snúist um þetta en síðastliðnar vikur hafa þeir ekki viljað útiloka að þeir myndu ganga til liðs við Miðflokkinn. Í dag staðfestu þeir það með tilkynningu.

Ástæðan sem stjórn Flokks fólksins gaf fyrir brottrekstri Karls Gauta og Ólafs úr flokknum var alvarlegur trúnaðarbrestur og harmaði stjórnin þá rýrð sem þeir köstuðu á flokkinn „með óafsakanlegri þátttöku sinni á fundi með þingmönnum Miðflokksins á Klaustur-bar þann 20. nóv. sl.“ Stjórnin hvatti þá auk þess til að segja af sér þingmennsku alfarið.

Með því að bæta við sig tveimur þingmönnum er Miðflokkurinn nú orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og þriðji stærsti þingflokkurinn á Alþingi.

Yfirlýsing Karls Gauta og Ólafs í heild sinni:

Við undirritaðir alþingismenn höfum ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag.

Áherslur okkar hafa birst í eindregnum stuðningi við láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi og þar eigum við samleið með Miðflokknum. Við erum sammála um nauðsyn þess að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu og skapa öldruðum og öryrkjum tækifæri til að bæta hag sinn með aukinni vinnu án skerðingar almannatryggingabóta. Við erum sammála um áherslur í málefnum hins sístækkandi hóps aldraðra sem geti notið ævikvöldsins á heimili sínu eins lengi og unnt er, með öruggu framboði hjúkrunarrýma þegar nauðsyn knýr á um slík úrræði.  

Á Alþingi höfum við átt samleið í áherslu á nútímalegt fjármálakerfi laust við okurvexti og verðtryggingu, þróttmikið atvinnulíf og fjárhagslegt öryggi íslenskra heimila. Við erum sammála um mikilvægi réttarríkisins, mannréttinda og að standa gegn hvers kyns valdníðslu. Við viljum stórátak í samgöngumálum og styðja við sóknarfæri í hinum dreifðu byggðum landsins.

Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins. Við höfum sameiginlega sýn á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, yfirráð hennar á auðlindum sínum og mikilvægi vestrænnar samvinnu.

Við teljum að á vettvangi Miðflokksins styrkjum við stöðu okkar á Alþingi til að knýja á um framgang þeirra málefna, sem kjósendur treystu okkur fyrir í síðustu alþingiskosningum.

 

Nýjast