Jóhannes segir að það hafi verið eitrað fyrir sér - lögreglan telur sig vita hverjir bera ábyrgð

Namibíska lögreglan er með til rannsóknar ítrekaðar tilraunir til að ráða Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu, af dögum. Þetta kemur fram í viðtali við Jóhannes sem verður sýnt í Kastljósi í kvöld á RÚV. Jóhannes hætti að starfa fyrir Samherja í júlí árið 2016. Eftir starfslok sín ákvað hann að afhenda Wikileks mikið magn af gögnum, meðal annars tölvupósta, sem sýna greiðslur til fyrrverandi ráðherra í Namibíu, en tveir ráðherrana eru nú í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins. Voru þeir dæmdir í gæsluvarðhald til 20 febrúar næstkomandi.
 

Jóhannes segir í viðtalinu að strax eftir að hann hafi látið af störfum hjá Samherja hafi undarlegir hlutir farið að gerast og ýmsir aðilar sýnt tölvunni hans mikinn áhuga. Jóhannes segist hafa verið heppinn að hafa mikið af góðu fólki í kringum sig sem hafi gripið inn í og ráðlagt honum að ráða sér lífverði þar sem hann taldi að öryggi sínu væri ógnað. Þá segir Jóhannes að oftar en einu sinni hafi verið eitrað fyrir honum í gegnum drykkjarföng og mat. Að hans sögn telur lögreglan í Namibíu sig vita hver beri ábyrgð á því og hvernig staðið hafi verið að verki.