Hrópað á hjálp hjá hagkaup: sagðist vilja deyja - „ef þið sjáið þennan mann, ekki hreyta í hann fúkyrðum“

„Í kvöld fór ég með syninum í Hagkaup að kaupa nesti og annað fyrir heimilið og verð þá var við að þar er staddur maður sem lífið hefur ekki tekið og umvafið sínu besta. Greyið maðurinn spurði veikri röddu á milli hóstahviða hvort einhver gæti hjálpað honum. Hann var að biðja um hjálp og betla. Hann var rennandi blautur, hor frosinn við nef hans, skeggið farið að minna á grýlukerti og hreyfingar hans orðnar stirðar sennilega vegna vosbúðar og kulda.“

Þannig hefst frásögn eftir hinn þaulreynda ljósmyndara Ásgeir Ásgeirsson, gjarnan kallaður Geirix. Ásgeir greinir frá því að hann hafi orðið vitni að því að sumir sem áttu leið hjá hafi hreytt í hann ónotum og maðurinn öskrað á móti á milli þess sem hann tók hóstaköst. Ásgeir heldur áfram:

„Inn á milli voru þó miskunnsamir samverjar sem gaukuðu að honum súkkulaðimjólk og jógúrt og einn ungur maður kom með poka af smá matvöru, sennilega um tvítugt og bauð honum servíettur til að snýta sér.“

\"\"

Ásgeir Ásgeirsson, öðru nafni Geirix / Mynd: Rósa

Ásgeir og sonur hans týndu saman allt lausafé sem þeir fundu í bílnum og færðu manninum.

„  ... enda sárt að horfa upp á samborgara okkar allra í þessari aðstöðu, enda ekki okkar að dæma, heldur bjóða hjálp ef við getum,“ segir Ásgeir og bætir við: „Hann þáð klinkið en mér leist ekki á blikuna, hann var gegnblautur og hóstinn eins og hjá verstu lungnabólgusjúklingum.“

Ásgeir fann einnig teppi í bílnum:

„Ég fór til hans og kynnti mig og spurði hvort hann væri ekki kaldur og vildi teppi til að hlýja sér, ég hefði ekki mikið en mér yrði örugglega fyrirgefið af RKÍ að láta eitt teppi frá mér í að hjálpa samborgaranum.“ Ásgeir bætir við:

„Ekki vildi hann þiggja teppið en sagði að hann vildi bara deyja. Ég stóð smástund, í þögn með honum, hann leit örstutt upp með augnaráði sem nísti inn að beini, jú hann hafði sína djöfla að draga manngreyið, en ég vissi að ég var ekki í aðstöðu til að rétta hjálparhönd öðruvísi en að sýna honum alla vega þá virðingu að standa þarna meðan hann sagði mér að lífið hefði leikið sig illa og hann væri orðin þreyttur á að lifa.“

Ásgeir hlustaði á manninn og það hafi í raun gert mun meira en fjármunir eða súkkulaðimjólk. Að sýna honum virðingu og láta hann ekki upplifa að hann væri ekki „óvelkominn illa gerður hlutur, heldur manneskja af holdi og blóði.“

Ásgeir bætir við: „Þegar hann hafði í stuttu sagt mér í stuttu máli átakanlega sögu sína, þá spurði ég hann hvort ég gæti eitthvað gert, hringt í einhvern eða hvort hann vildi þiggja teppið til að halda á sér hlýju en hann leit aftur upp, með smá brosvipru og sagði að þetta væri í lagi og þakkaði fyrir og leit síðan aftur niðurlútur á bringu sér.“

\"\"

Mynd: prezzphotos.biz / Geirix

Ásgeir hélt síðan heim á leið með syni sínum. Þeir voru hugsi á leiðinni til baka en kynslóðin sem nú hefur tekið við gæti gert betur þegar kemur að því að passa upp á samborgarana sem villst hafa af leið.

„Eftir situr þetta í okkur feðgum að þarna var einn af okkar minnstu bræðrum, kaldur, blautur og hrakinn að betla og biðja um hjálp, stoltur en samt úrkula vonar með að lífið hefði nokkurn tilgang.“

Þá segir Ásgeir að lokum: „Ef þið sem þetta lesið sjáið þennan mann, ekki labba framhjá honum eins og hann sé ósýnilegur eða hreyta í hann fúkyrðum. Það er allt í lagi að bjóða góða kvöldið og gefa honum smá mannlega reisn með tveggja mínútna spjalli. Það þarf oft ekki mikið til að fólki eins og þessum manni sé færð aftur trúin á sjálfan sig og lífið og við erum öll aflögufær um kurteisi og samúð.“