Hringbraut talar við konurnar sem eiga sviðið

Það var stemning, gleði og samstaða sem einkenndi andrúmsloftið í Gamla bíói siðastliðið fimmtudagskvöld þegar FKA viðurkenningarhátíðin var haldin í tuttugasta sinn, en hana fönguðu starfsmenn Hringbrautar og sýna í formi sjónvarpsþáttar sem fer á öldur ljósvakans í kvöld klukkan 20:00.

Það eru þau skötuhjúin Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður dómnefndar FKA verðlaunanna, sem annast umsjá þáttarins og þau taka margar konur tali, þar á meðal Huldu Ragnheiði Árnadóttur, formann Félags kvenna í atvinnulífinu og Andreu Róbertsdóttur framkvæmdastjóra félagsins. Svo verða verðlaunahafarnir í sviðsljósinu, Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marels á Íslandi, sem hreppti aðalverðlaun FKA að þessu sinni, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og eigandi Kara Connect ehf, sem hlaut hvatningarverðlaunin og Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi stjórnandi á Landspítalanum sem tók á móti þakkarverðlaununum.