Hraungos myndi valda miklu tjóni: „auðvitað er fólk óttaslegið“ - „ef sprungan myndi ná út í sjó, yrði aska“ - vegir og raflínu færu í sundur

Rólegt hefur verið á svæðinu í kringum Grindavík og á Reykjanesskaga í nótt. Eins og kom fram í fréttum í gær virkjuðu Almannavarnir óvissustig vegna hættu á kvikusöfnun undir fjallinu Þorbirni. Þá var litakóði fyrir flug fært á gult. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir í samtali við RÚV:

„Auðvitað er fólk óttaslegið vegna þess að eldgos, það versta sem getur komið fyrir, er ekkert grín svona nálægt byggð. Okkur er sagt að þetta sé ekki af þeirri stærðargráðu að þetta myndi teljast til mikilla tíðinda ef þetta væri ekki svona nálægt byggðinni hérna. Það eru 3.500 manns sem búa í bænum.“

Næstu skref hjá bæjarstjórn verða tekin klukkan tíu. Páll Einarsson jarðfeðlisfræðingur tjáði sig við Vísi seint í gær. Þar sagði hann að vísindamenn hefði lengi beðið eftir merkjum í þá veru sem hafa sést undanfarið, með landrisi á svæðinu. Páll segir í samtali við Vísi að gos á svæðinu séu yfirleitt ekki hættuleg. Málið er hins vegar að gosið gæti nálægt byggð. Páll segir við Vísi:

„Það er rétt að láta það fylgja með. Þetta eru hraungos, sprungugos. Hraungos eru með meinlausustu eldgosum, ef maður er með eldgos á annað borð.“

Páll bætir við að hraungos á þessu svæði myndi valda miklu tjóni.

„Það munu fara í sundur raflínur. Það munu fara í sundur vegir. Heita vatnið og kalda vatnið... Það yrðu vandamálin sem þyrfti að fást við. En það er ekki búist við manntjóni eða einhver slasist, nema þá fyrir einhverja einskæra óheppni. Það yrði eflaust ráðrúm til að koma fólki undan.“

Þá fór frétt frá Víkurfréttum á flug í gær en fréttin er frá 2018. Þar var rætt við Þóru Björg Andrésdóttur sem vann ritgerð um hættumat vegna eldgosa og líklegustu staðsetningar eldsumbrota á Reykjanesi eða vesturhluta þess. Þar sagði Þóra að Grindavík og Vogar væru í mestri hættu. Þóra sagði:

„Mesta hættan sem skapast í kringum þessi gos er hraun sem rennur, gas og ef sprungan myndi ná út í sjó, þá yrði það aska.“

Verði gos á svæðinu verður farið yfir hættumat en Þóra býr yfir miklum upplýsingum um svæðið. Að hennar mati er viðbragðstíminn frá því að gos hefst og hætta skapast um klukkutími. Í frétt Víkurfrétta segir:

„Á svæðinu þar sem líkur eru á að gos muni hefjast eru fjórir farsímaturnar þar sem hraunið getur byrjað. Ljósleiðarar liggja meðfram svæðunum en að mati Þóru eru farsímaturnarnir aðal málið þar sem að mikilvægt er að geta sent skilaboð og annað til að vara við.“