„heiladauði“ – nato – evrópa - ísland

Tímaritið Economist birti á dögunum viðtal við Macron forseta Frakklands þar sem hann lýsti heiladauða NATO. Hann tók stórt upp í sig eins og Trump forseti Bandaríkjanna gerði, þegar hann fullyrti í kosningabaráttu sinni að NATO væri úrelt.

Merkel kanslari Þýskalands hefur andmælt ummælum franska forsetans. Hún bendir réttilega á að Evrópuþjóðir ráða ekki, að öllu óbreyttu, við varnir álfunnar án samstarfs við Bandaríkin. En hitt er líka veruleiki að það hefur fjarað undan samheldninni í þessu samstarfi allt frá falli Berlínarmúrsins og með afgerandi hætti eftir komu Trumps.

Bandaríkin snúa baki við efnahags- og viðskiptasamstarfi Evrópu

Eitt af þeim atriðum sem forseti Frakklands bendir réttilega á er sú staðreynd að Bandaríkin hafa nú snúið baki við efnahags- og viðskiptasamstarfi Evrópuþjóðanna. Það þýðir tvennt: Annars vegar eru leiðir að skilja hugmyndafræðilega. Hins vegar fara efnahagslegir hagsmunir ekki lengur saman í þeim mæli sem áður var.

Því má ekki gleyma í þessu sambandi að þróun efnahags- og viðskiptasamstarfs Evrópu var frá upphafi óaðskiljanlegur hluti af uppbyggingu varnarsamstarfs við Bandaríkin. Nú telja Bandaríkin að efnahags- og viðskiptasamstarf Evrópuþjóða ógni beinlínis hagsmunum þeirra. Þau líta svo á að yfirburðir þeirra fái ekki notið sín nema í tvíhliða samningum við einstök ríki.

Leysist Evrópusambandið upp molnar NATO

Þegar sameiginleg hugmyndafræði í efnahags- og viðskiptamálum tengir ekki lengur saman hagsmuni þjóðanna austan hafs og vestan komast Evrópuþjóðirnar einfaldlega ekki hjá því að taka stærri hluta varna álfunnar smám saman í eigin hendur. Það er langtíma verkefni, sem verður hvorki fugl né fiskur án fjölþjóða samstarfs um sameiginleg gildi og hagsmuni.

Þó að deila megi um orðnotkun eins og heildadauða er ekki unnt að líta framhjá því að forseti Frakklands er að horfast í augu við gjörbreyttar aðstæður í samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna. Leysist Evrópusambandið upp, eins og Bandaríkjamenn vilja, molnar hugmyndafræðilegi grundvöllurinn um leið undan NATO. Efnahags- og viðskiptasamstarfið er forsenda friðar í Evrópu. Það sáu Bandaríkjamenn á sínum tíma en skilja ekki lengur eða kæra sig ekki um að skilja.

Breytt stefna Bandaríkjanna hefur áhrif á Ísland

Allt snertir þetta Ísland með beinum og áþreifanlegum hætti. Bandaríkin gefa nú til kynna að þau séu fús til að gera fríverslunarsamning við Ísland og efna til samstarfs um efnahagsmál. Tilgangurinn virðist vera tvíþættur: Annars vegar að draga Ísland frá fjölþjóðasamstarfinu á innri markaði Evrópusambandsins og inn í kerfi tvíhliða samninga. Hins vegar að afla velvildar með slíku samstarfi til að koma ár sinni fyrir borð hernaðarlega á Norðurskautssvæðinu.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur gefið Bandaríkjunum undir fótinn með að þau kunni að hafa erindi sem erfiði í þessu efni. Það hefur hún gert með sí endurteknum yfirlýsingum um að framtíðin liggi í tvíhliða viðskiptasamningum og að Ísland sé helsta stuðningsríki brexit því þar séu tækifærin.

Aukin áhersla á varnarsamstarf við Norðurlönd og Evrópu

Betur færi á því að ríkisstjórnin talaði á annan veg:

Í fyrsta lagi að segja hreint út við Bandaríkjamenn, um leið og fríverslunarviðræðum er fagnað, að þær fari fram á þeirri forsendu að framtíðarhagsmunir Íslands liggi á innri markaði Evrópusambandsins og ekki verði horfið frá hugmyndafræðinni um fjölþjóðasamvinnu á þeim vettvangi.

Í öðru lagi að leggja þyngri áherslu á norrænt og evrópskt varnarsamstarf. Það mætti sýna í verki með auknu framlag við borgaraleg eftirlitsstörf á norður hafsvæðinu. Nýtt skref í því efni gæti líka verið að kanna möguleika á aðild eða aukaaðild að nýju samstarfsverkefni nokkurra Evrópuþjóða í varnarmálum, þar á meðal allra annarra Norðurlanda, sem kallast The European Intervention Initiative.

Bandaríkin munu notfæra sér veikleika ríkisstjórnarinnar

Evrópuþjóðirnar hafa val um tvennt: Að fylgja Bretum inn í kerfi tvíhliða samninga eða efla fjölþjóðasamstarfið í Evrópu bæði að því er varðar efnahagsmál og varnir. Síðari kosturinn þjónar hagsmunum Íslands betur.

Eins og sakir standa felst helsti veikleiki Íslands í því að ríkisstjórnin er mynduð um óbreytt ástand. Hún á því erfitt með að taka af skarið og móta skýra stefnu þegar hún stendur andspænis nýjum aðstæðum. Engin vafi er á því að Bandaríkin munu notfæra sér þennan veikleika.