Gunnar Bragi og Bergþór gestir í 21

Gunnar Bragi og Bergþór gestir í 21

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, tilkynntu báðir í morgun að þeir hygðust snúa aftur til þingstarfa. Gunnar Bragi greindi frá því í tilkynningu með tölvupósti og Bergþór í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Þeir tóku sér báðir launalaust leyfi frá þingstörfum í kjölfar þess að Klaustursupptökurnar voru gerðar opinberar í lok nóvember síðastliðins.

Á upptökunum má meðal annars heyra þá tala ósæmilega um konur, þar á meðal Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Ingu Sæland formann Flokks fólksins. Gunnar Bragi ræðir einnig það sem virðist vera pólitísk hrossakaup vegna skipan í sendiherrastöðu.

Gunnar Bragi og Bergþór eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut, þar sem þeir ræða endurkomu sína.

Gunnar Bragi hóf þingstörf að nýju í dag. Í yfirlýsingu sinni segist Gunnar Bragi finna sig knúinn til að snúa aftur til starfa vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Hann segist iðrast óviðeigandi og særandi orða og að hann hafi beðist fyrirgefningar á orðum sínum og geri það nú aftur. Hann ítrekar þó skoðun sína að upptökurnar hafi verið ólögmætar.

Bergþór hóf sömuleiðis þingstörf að nýju í dag. Í grein sinni í Morgunblaðinu segir hann það vera vonda þróun að legið sé á hleri þegar annað fólk talar saman á veit­inga­hús­um. Honum hafi fundist vont að fjöl­miðlar teldu sjálf­sagt að birta slíkt drykkju­raus opin­ber­lega og eig­in­lega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvort tveggja. En verst af öllu hafi honum fundist að heyra í sjálfum sér. Í yfirlýsingu bætti Bergþór við að hann teldi það óhjákvæmilegt að flýta för sinni á þing vegna þeirra spjóta sem á sér stóðu strax á fyrstu dögum Alþingis.

Skot í þingsal

Mbl.is greinir frá því að Hall­dóra Mo­gensen, þingmaður Pírata, og Jón Stein­dór Valdi­mars­son, þingmaður Viðreisn­ar, hófu ræður sín­ar und­ir liðnum óund­ir­bún­ar fyr­ir­spurn­ir á Alþingi í dag með því að skjóta á Gunnar Braga og Bergþór.

„Ég verð að viður­kenna að það hef­ur aðeins sett mig úr jafn­vægi að sjá Klaust­urs­menn sitja hér inni í þess­um sal eins og ekk­ert hafi í skorist. En við verðum víst að halda áfram,“ sagði Hall­dóra.

„Mér þykir nú held­ur skugg­sýnt yfir þingsaln­um í dag,“ sagði Jón Steindór.

Nýjast