Guðmundur fær 12.4 milljónir

„Starfandi bæjarstjóri getur upplýst um að uppgjör við fráfarandi bæjarstjóra, Guðmund Gunnarsson, er kr. 12.465.498,-, en um 6 mánaða laun er að ræða. Nýráðinn bæjarstjóri mun starfa fimm mánuði af þeim sex sem uppsagnarfrestur fyrri bæjarstjóra tekur til.“

Frá þessu er greint á Eyjunni sem vitnar í minnisblað Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur sem er starfandi bæjarstjóri á Ísafirði í svari um kostnað vegna bæjarstjóraskipta. Guðmundur hætti svo frægt var sem bæjarstjóri á Ísafirði í lok janúar. Guðmundur tjáði sig um brotthvarfið fyrir tæpri viku en þá sagði bæjarstjórinn fyrrverandi:

„Það er sannarlega skrítin tilfinning að finnast maður ekki lengur velkominn í samfélaginu sem ól mann upp. En þannig er það nú samt. Hér líður okkur ekki lengur vel. Atburðir síðustu vikna hafa gert það að verkum. Ekki síst þær furðuskýringar sem grasserað hafa í kjölfar starfslokanna.“

Guðmundur bætti við að honum fyndist hann ekki lengur velkominn í samfélaginu og sagði:

„Við sjáum sæng okkar upp reidda og viljum ekki vera hluti af samfélagi þar sem fyrirferðamiklar stjórnmálahreyfingar umbera fantabrögð freka kallsins og dreifa svo rógburði til að réttlæta þau.“

Laun bæjarstjóra á Ísafirði með bifreiðastyrk og orlofi eru 1.798.977,- á mánuði.