Gruna Íslending í Torrevieja um græsku: Henry hvarf skömmu eftir andlát annars Íslendings

Gruna Íslending í Torrevieja um græsku: Henry hvarf skömmu eftir andlát annars Íslendings

Í dularfullu mannshvarfsmáli í Torrevieja á Spáni koma Íslendingar við sögu. Ítrekað hefur verið fjallað um málið í spænskum miðlum síðustu vikur. Þá eru uppi getgátur um að það tengist andláti ungs Íslendings. DV hefur fjallað um málið síðustu vikur.

Henry Alejandro Marín, var tvítugur menntaskólanemi af kólumbískum ættum. Hann yfirgaf heimili sitt í La Florida í Torrevieja á nýársnótt. Ekkert hefur spurst til hans síðan. Í Torrevieja eiga fjölmargir Íslendingar hús. Þá býr einnig mikill fjöldi Íslendinga á svæðinu.

Málið virðist vera afar dularfullt en í spænskum miðlum kom fram í lok seinasta árs að ungur íslenskur maður hefði fundist látinn í sófa í íbúð sem staðsett var í sama fjölbýlishúsi og Henry var búsettur í. Banamein Íslendingsins var of stór skammtur af eiturlyfjum. Sá hafði leigt með tveimur öðrum Íslendingum. Eftir þennan hörmungaratburð flutti annar Íslendingurinn á heimaslóðir en Henry flutti inn til Íslendingsins sem varð eftir. Í DV kemur fram að Andrés Jiménez, bróðir Henry, segir að bróður hans hafi viljað vera til staðar fyrir vin sinn, sem var einn á Spáni að takast á við sáran og erfiðan missi.

Þá gerist það að á gamlárskvöld ákváðu þeir félagar, Íslendingurinn og Henry halda samkvæmi í íbúð sinni. Samkvæmt spænskum miðlum endaði kvöldið illa, er Íslendingurinn sagður hafa gengið í skrokk á Henry. Eftir það rauk Henry á dyr og hefur ekki fundist síðan þrátt fyrir mikla leit. Lögreglan hefur yfirheyrt gesti sem og Íslendinginn sjálfan. Eru frásagnir vitna afar misjafnar og ekki verið til að hjálpa yfirvöldum í rannsókn málsins og miðar því lítt áfram.

Móðir Henry furðar sig á í samtali við spænska miðla af hverju Íslendingurinn hafi ekki verið handtekinn og er fullviss um að sonur hennar hafi ekki yfirgefið íbúðina sjálfviljugur. Hann hafi hvorki verið með síma eða nokkur skilríki á sér. Haft er eftir móður hans:

„Hann er svo góðhjartaður og ákvað þess vegna að fara að búa með vini sínum, sem seinna átti eftir að ráðast á hann.“

Henry hefur nú verið týndur í rúma hundrað daga og virðist lögregla hafa lítið í höndunum að byggja á. Á meðan fjarar vonin út. Nánar er fjallað um málið í DV.

Við minnum á Facebook-síðu Hringbrautar. Þar er að finna áhugaverðar fréttir og þá er ýmislegt spennandi framundan fyrir vini Hringbrautar á Facebook. SMELLTU HÉR og vertu vinur okkar á Facebook.

Nýjast