Fullkomið óráð að gera laugaveg að göngugötu

Pétri finnst sérlega vel hafa tekist til með endurbyggingu Hafnarstrætis 19, þar sem Helgi Magnússon & Co. var áður til húsa og síðar Rammagerðin. Formið minnir á straujárn. Mynd af vef Lyfju.

Pétur H. Ármannsson arkitekt er gestur Björns Jóns Bragasonar í þættinum Sögu & samfélagi á Hringbraut í kvöld kl. 21.30. Pétur mun þar fjalla um breytta ásýnd miðbæjar Reykjavíkur, vega og meta nýlegar framkvæmdir, ræða um það sem betur hefði mátt fara en líka geta vel heppnaðra bygginga. Í því sambandi nefnir Pétur Hafnarstræti 19, þar sem Rammagerðin var áður til húsa og enn áður Helgi Magnússon & Co. Þar var nýtt hús reist í mynd þess gamla. Grípum niður í viðtalið við Pétur:

„Þar var niðurstaðan að halda húsinu óbreyttu og byggja við það af virðingu fyrir því sem fyrir var. Þá kom þetta óvenjulega form á það: Þetta straujárn sem er eitthvað nýtt í borgarmynd Reykjavíkur og ég verð að segja það að þetta er einhver best heppnaða aðgerð í lengri tíma í miðbænum. Þarna er orðið til skemmtilegt hús, skemmtilegt göturými og þessi nýbygging er strax farin að geisla út frá sér og hafa jákvæð áhrif á umhverfið sem maður saknar svo mikið með margar nýbyggingar.“

Pétur kveðst taka undir orð Bolla Kristinssonar kaupmanns sem er í farabroddi Laugavegskaupmanna sem hafna allsherjarlokun Laugavegarins, en hann var í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson í vikunni sem leið. Bolli hefur nefnt að rætt væri að fara sömu leið og Akureyringar og loka Laugaveginum aðeins á góðviðrisdögum yfir sumarið. Pétur samsinnir þessu og bætir við:

„Það að gera Laugaveg að hreinni göngugötu og verja til þess stórfé upp á von og óvon í andstöðu við samfélagið í götunni finnst mér fullkomið óráð.“

Saga & samfélag er á dagskrá í kvöld kl: 21:30