Freyja segir fatlað fólk ekki ráðið hjá hinu opinbera þrátt fyrir umbeðna hæfni

Freyja segir fatlað fólk ekki ráðið hjá hinu opinbera þrátt fyrir umbeðna hæfni

„Nú þegar haustið er að bresta á byrja að hrynja inn beiðnir frá stjórnvöldum til félagasamtaka um allskonar vinnu sem felst í að við eigum að bjóða fram þekkingu okkar, hugmyndir og (oft sára) lífsreynslu. Sjaldnast er greitt fyrir þessa (tilfinninga)vinnu.“

Þetta segir Freyja Haraldsdóttir, verkefnastjóri Tabú, feminískrar hreyfingar fatlaðra kvenna, á Twitter-síðu sinni í gær. Þar bendir hún á að mörg samtök, þar á meðal Tabú, hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að halda úti starfsfólki, sem setji þær sem standa að slíkum samtökum í erfiða stöðu.

„Því stöndum við frammi fyrir því að ákveða hvort við vinnum sjálfboðavinnu fyrir stjórnvöld eða sleppum samráðinu,“ segir Freyja.

Hún bendir á að hvoru tveggja sé mjög dýrkeypt fyrir jaðarsett fólk. „Ef við neitum að sinna þessari sjálfboðavinnu er jafnvel ekkert samráð haft fyrir þann hóp sem við tilheyrum og fólk í valdastöðum tekur allar ákvarðanir um líf okkar. Það getur haft alvarleg áhrif á réttarstöðu og lífsgæði.“

„Eða við tökum endalaust að okkur sjálfboðavinnu samhliða vinnu, námi eða lífinu (sem stundum er mjög flókið) og endum oft í kulnun. Á sama tíma greiða stjórnvöld formúgur til sérfræðinga í forréttindastöðum og starfsfólk ráðuneytisins er á launum í allri þessari vinnu,“ bætir Freyja við.

Hún bendir á skyldu stjórnvalda í þessum efnum. „Samráð er skylda stjórnvalda en ekki einhver næsheit við vesalings valdalausa fólkið. Það er partur af því að tryggja lýðræði og tjáningarfrelsi og því þarf að skapa öllum sömu tækifærin til þess.“

„Stjórnvöld eiga að r[á]ða okkur í vinnu hjá sér. Ekki kalla bara á okkur í kort[e]rs erindi eða á einn fund og eiginlega biðja okkur að blessa þeirra vinnu. Fatlað fólk hefur ítrekað sótt um allskonar stöður hjá hinu opinbera en við erum ekki ráðin þrátt fyrir umbeðna hæfni,“ segir Freyja að lokum og bendir fólki á að kynna sér almennar athugasemdir Sameinuðu þjóðanna um samráð við fatlað fólk.

Nýjast