Forstjóra Reykjalundar sagt upp fyrirvaralaust: Leiddur út af stjórnarformanni SÍBS - Starfsfólk í áfalli

Sagðir ásælast fjármuni sem nýttir eru í hjúkrun

Forstjóra Reykjalundar sagt upp fyrirvaralaust: Leiddur út af stjórnarformanni SÍBS - Starfsfólk í áfalli

Birgi Gunnarsyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Reykjalundar til 12 ára, var sagt upp störfum fyrirvaralaust fyrir nokkrum dögum síðan. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar var Birgir leiddur út úr skrifstofum Reykjalundar af stjórnarformanni og varaformanni stjórnar SÍBS sama dag og hann skrifaði undir starfsmannalokasamning. Samkvæmt heimildum Hringbrautar ásælist stjórn SÍBS leigutekjur sem Reykjalundur hefur af húsnæðinu en SÍBS leggur ekki fjármuni til rekstursins.

Hringbraut ræddi við starfsmenn Reykjalundar sem urðu vitni að því þegar Birgir var leiddur í burtu án nokkurra útskýringa. Þá fékk Birgir ekki tækifæri til að kveðja samstarfsfólk til margra ára, en hann þótti farsæll í starfi og var vel liðinn á meðal starfsfólks. Var starfsfólk slegið og var eins og áður segir ekki upplýst um af hverju brottreksturinn væri til kominn. Einn starfsmaður Reykjalundar segir að Birgi hafi ekki verið heimilað að taka eigur sínar af skrifstofu sinni, heldur var honum vísað beint út úr byggingunni.

Að sögn þeirra aðila sem Hringbraut ræddi við innan SÍBS og Reykjalundar er ástæða uppsagnar Birgis ekki að ástæðulausu. Árið 2013 ákvað stjórn SÍBS að leigutekjur af húsnæði Reykjalundar skildu renna beint til félagsins en ekki til rekstrar Reykjalundar. Fjármagnið vegna leigutekna er um 30 milljónir árlega. Að sögn heimildarmanna barðist Birgir hart gegn því að umræddir fjármunir yrðu teknir úr rekstri Reykjalundar enda ljóst að slíkur niðurskurður myndi fyrst og fremst bitna á sjúklingum og starfsfólki. Birgir hafði betur í baráttunni en með skipan nýs forstjóra stendur ekkert í vegi stjórnar SÍBS að taka þessar dýrmætu 30 milljónir króna sem áður fóru til Reykjalundar og færa þær yfir í rekstur SÍBS, þar sem samþykkt stjórnar liggur fyrir. Þá segja heimildarmenn Hringbrautar að stjórn SÍBS sögð að reyna ítrekað að hafa áhrif á ákvörðunartöku þegar kemur að daglegum rekstri Reykjalundar. Þess má geta að SÍBS leggur enga fjármuni í daglegan rekstur Reykjalundar heldur sér íslenska ríkið alfarið um að fjármagna starfsemina sem þar fer fram.

Verjast fregna af málinu

Hringbraut hafði samband við Nilsínu Larsen Einarsdóttur, fyrrverandi varaformann stjórnar SÍBS, vegna málsins en hún vildi ekki tjá sig við blaðamann.

Þá neitaði Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, að tjá sig um málið. Hann sagði:

„Ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég get ekkert sagt. Þetta er alfarið á milli Birgis og stjórnar.“

Hringbraut ræddi einnig við Sveinn Guðmundsson. En hann er Stjórnarformaður SÍBS.

BLM: Hver er ástæða brotthvarfs Birgis sem forstjóra Reykjalundar?

Sveinn: Það þarf ég ekkert að gefa upp, það er bara trúnaðarskjal sem er á milli stjórnar og hans um starfslokasamning, það er ekkert öðruvísi.

BLM: Er þetta ekki ansi snöggt brotthvarf?

Sveinn: Það er þín upplifun

BLM: Þið viljið ekkert tjá ykkur um ástæðu uppsagnar?

Sveinn: Við getum það ekki, við erum með undirritaða yfirlýsingu að þetta verði ekki rætt neins staðar.

BLM: Þannig þið viljið ekki að hann ræði þetta heldur?

Sveinn: Ef hann gerir það þá rífur hann samkomulagið og þá dettur niður starslokasamningurinn hjá honum, ef hann kýs að gera það.

BLM: Hvað kostaði þessi starfslokasamningur SÍBS?

Sveinn: Það gef ég heldur ekki upp. Við erum að gera ákveðnar áætlanir sem miðast að tjónið okkar verði ekki neitt til enda. Ég þarf svo sem ekkert að útskýra það fyrir þér 

Spurður um hvað var sagt við starfsfólk Reykjalundar vegna brotthvarfs Birgis segir Sveinn að stjórnin og hann hafi ekki verið á sömu slóð með stefnu.

Við vorum ekki á sömu slóð með stefnu og annað. Ekkert annað meira um það að segja.

Aðspurður um hvort Birgi hafi verið fylgt út úr byggingu Reykjalundar segir Sveinn að allt hafi farið vel fram.

Ég veit ekki hvaðan þú hefur þínar heimildir en þetta fór bara allt vel fram og þetta er bara búið eins og segi. Við erum svo bara að fara auglýsa stöðuna í framhaldi.

Hringbraut hafði samband við Birgi Gunnarsson, fyrrverandi forstjóra Reykjalundar vegna málsins, en hann sagðist ekki getað tjáð sig neitt um málið þar sem hann væri bundinn trúnaði samkvæmt starfslokasamningi sem hann hafi skrifað undir.

Nýjast