Færi framtíðar

Í bókinni „The New Fish Wave“, sem nýverið kom út í Bandaríkjunum, lýsir Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, hvernig Íslendingar hafa byggt upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í kringum íslenskan sjávarútveg og hvernig þeim hefur tekist að búa til fjölmörg haftengd nýsköpunarfyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða.

Talið er að árlega sé um 10 milljónum tonna af fiski hent á heimsvísu. Stór hluti þess eru verðmæt prótein. Íslendingar nýta mun meira af hverjum veiddum fiski en aðrar þjóðir. Hér nýtum við tæplega 80 prósent af hverjum fiski en algengt er að aðrir nýti um helming þar sem nær öllu nema fiskflakinu er hent. Við Íslendingar getum boðið tækniþekkingu og ráðgjöf í veiðum og vinnslu sem getur leitt til mun minni sóunar og betri umgengni um náttúruauðlindir á heimsvísu. Glæsileg fyrirtæki á borð við Marel, Hampiðjuna, Skagann3X, Völku og Frost, eru dæmi um fyrirtæki sem eru þekkt á heimsvísu á sínu sviði og geta leitt þá byltingu í veiðum og vinnslu sem Íslendingar geta haft forystu um.

Í fullvinnslu hliðarafurða fisks eru tæplega 40 fyrirtæki starfandi hérlendis. Lýsi er rótgróið og þekkt á þessu sviði en fjölmörg framsækin fyrirtæki hafa komið fram hérlendis á síðustu árum. Nefna má fyrirtækin Zymetech, Iceprotein, Marine Collagen, Primex, Codland, Genis og Kerecis í þessu sambandi. Hvert á sínu sviði eru þau að ná að beisla þekkingu til að nýta hliðarafurðir sjávarafurða og skapa með því mikil verðmæti og áhugaverð störf. Árangur þeirra á að verða hvatning til enn fleiri sigra á þessu sviði.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, sagði í viðtali í vikunni við Markaðinn að fyrirtæki hans, sem þróað hefur leið til að affruma þorskroð til sárameðhöndlunar, geti skapað hátt í hálfrar milljónar króna verðmæti úr einum þorski!

Árangur Íslendinga hefur vakið athygli víða. Auk áhuga á vörum framsækinna tæknifyrirtækja er mikill áhugi erlendis fyrir samstarfi við innlendar háskóla- og rannsóknastofnanir og frumkvöðla- og nýsköpunarstarf eins og í Sjávarklasanum.

Við ættum að horfa okkur nær þegar við metum færi framtíðarinnar. Í bakgarðinum er gríðarstór landhelgi með mikla möguleika. Hið bláa hagkerfi getur vaxið ört á næstu árum en gleymum ekki að langflest þeirra fyrirtækja sem hér hafa verið nefnd eru ávöxtur mikillar rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem oft hefur orðið til í samstarfi frumkvöðla, mennta- og rannsóknarstofnana.

Til áframhaldandi ævintýra hins bláa hagkerfis verður að treysta enn frekar rannsóknar- og samkeppnissjóði, efla tækni- og háskólamenntun og örva frumkvöðlastarf. Því til viðbótar verður að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrirtækja með því að stilla skattheimtu og eftirliti í hóf.

En kannski er stærsta verkefnið að við gerum okkur sjálf grein fyrir þeim tækifærum, sem við búum við, og að ungir Íslendingar séu hvattir til að hasla sér völl í nýsköpun þekkingar innan hins bláa hagkerfis. Í ólgandi hafsjó eru færi framtíðarinnar.