Erla: „vansvefta er einn helsti áhættuþátturinn fyrir ofþyngd“ - börn sofa minna í dag en fyrir áratug

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur hjá Betri svefn, segir að svefn barna og ungmenna geti haft gríðarleg áhrif á heilsu þeirra. Sem dæmi segir hún að vansvefta sé einn helstu áhættuþátturinn fyrir ofþyngd barna. Erla var gestur í frétta og umræðuþættinum 21 hér á Hringbraut, þar sem hún ræddi einnig hvaða áhrif breyting á klukkunni getur haft á svefn Íslendinga.

„Svefn hefur áhrif á alla þessa þætti, auðvitað eru fleiri þættir sem hafa áhrif, en svefninn er svo gríðarlega mikilvæg grunnstoð. Ef svefninn er ekki í lagi þá fer það hafa einhver snjóboltaáhrif á svo rosalega margt annað. Við sjáum til dæmis bara með ofþyngd, sem er að aukast gríðarlega mikið, það að vera vansvefta er einn helsti áhættuþátturinn fyrir ofþyngd.“

Þá segir Erla að börn sem sofa minna séu líklegri að vera í ofþyngd, en rannsóknir sýna að börn séu að sofa minna í dag en fyrir um áratug síðan. 

„Vegna þess að við breytum framleiðslu hormóna, líkaminn okkar fer að kalla á öðruvísi mat, við höldum betur í orkuna okkar og við hreyfum okkur síður. Þannig þarna er mjög sterkt samband og við höfum til dæmis séð það á rannsóknum þegar við skoðum bara síðasta áratuginn, að börn í dag sofa minna og þau eru líklegri að vera í ofþyngd heldur en þau voru fyrir áratug síðan og þarna er alveg samband á milli.“   

Hér að neðan má svo sjá allt viðtalið.