Elliði opnar sig um vandræði sjálfstæðisflokksins: „búið að klippa bæði haus og hala af sjálfstæðisflokknum“

„Málið er hinsvegar að Sjálfstæðisflokkurinn í dag er á algerum krossgötum.  Hann er settur saman úr annarsvegar íhaldsmönnum og hinsvegar frjálslyndum,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi og ein af vonarstjörnum Sjálfstæðisflokksins við Viljann þegar hann er beðinn um að leggja mat á þær miklu deilur sem eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins.

Elliði heldur áfram: 

„Í flestum löndum eru þetta tveir flokkar en hér hjá okkur er þetta sami flokkurinn.  Í dag eru frjálslyndir búnir að finna sér tærari rödd innan annarsvegar Viðreisnar og hinsvegar Pírata.  Þar er talað skýrar um frelsi, Laissez-faire og önnur slík prinsippmál.“

Þá segir Elliði að Miðflokkurinn hafi tekið sér stöðu sem talar skýrar inn í hóp Íhaldsmanna en hans eigin flokkur. Elliði segir:

„Þannig er búið að klippa bæði haus og hala af Sjálfstæðisflokknum.“ Elliði bætir við:

 „Ætli flokkurinn að ná sér á strik þá verður hann að bera gæfu til þess að fara að tala skýrar.  Hann þarf að láta af því að tala sífellt inn í þann hóp sem aldrei mun kjósa hann og einbeita sér að því að standa fyrir hugsjónir sem aldrei verður vikið frá.“