Elliði og Samherji: Kennir vinstrimönnum um - „Reiðin má ekki taka völdin. Hún má ekki verða að vonsku.“

Elliði og Samherji: Kennir vinstrimönnum um - „Reiðin má ekki taka völdin. Hún má ekki verða að vonsku.“

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, telur að Samherjamálið sýni að sjávarútvegsfyrirtækin hafi hreðjartak á bæjarfélögum á Íslandi. Afleiðingarnar séu þær að bæjarfulltrúar og bæjarstjórar séu af þeim sökum undir hælnum á sjávarútvegsfyrirtækjum. Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum en stýrir nú Ölfusi, gagnrýnir Drífu og segir viðhorf hennar til sjávarbyggða vera undarlegt og nú sé vonskan að ná yfirhönd í umræðunni.

 Elliði kveðst á heimasíðu sinni hafa lent í átökum fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar við Samherja. Í húfi hafi verið milljarðar en þrátt fyrir mikla hagsmuni hafi samskiptin alltaf verið fagleg og einkennst af virðingu.

Þá segir Elliði að allir séu sammála um að rannsaka þurfi atburðarásina í Namibíu. Einnig að skoða aðkomu Samherja, sem eru sakaðir um að hafa farið þar um ránshendi, mútandi háttsettum ráðamönnum, sem Elliði segir Sósíalista og auðvelt hafi verið að múta þeim. Elliði segir: 

„Það er ekkert óeðlilegt að fólk verði reitt þegar vísbendingar vakna um slæma framkomu. En jafnvel þótt maður verði reiður, það fjúki í mann og maður verði snöggvondur þá má reiðin ekki taka völdin.  Hún má ekki verða að vonsku.“

Elliði bætir við að hina miklu reiði, sem hafi gripið þjóðina, megi rekja til vinstrimanna. Hann segir: 

„Eftir birtingu þáttar Kveiks þykir mér reiðin hafa náð tökum á  vinstri væng stjórnmálanna hér á Íslandi.  Öll meðul virðast heimil í baráttunni fyrir „kerfisbreytingu“. Meint brot í Namibíu hikstalaust tengd við íslenska smábæi.“

Þá segir Elliði að lokum: 

„Svo slæm sem brot í Afríku kunna að hafa verið þá má illskan vegna þeirra hér á landi ekki verða til að valda þjóðinni -sem stendur utan við þetta allt- tjóni.  Reiðin má ekki verða að vonsku.“

Nýjast