Egill: Hættir að iðrast – Varla nein tilviljun

Egill: Hættir að iðrast – Varla nein tilviljun

„Það er athyglisvert að sjá að nú þegar hefur verið felldur úrskurður forsætisnefndar Alþingis í Klaustursmálinu eru Miðflokksmenn hættir að sýna nokkra iðrun. Þvert á móti láta þeir eins og þeir hafi verið miklum órétti beittir, að þarna hafi verið í gangi aðför að þeim.“

Þetta segir Egill Helgason á Eyjunni. Hann bætir við að það sé í raun erfitt að kenna öðrum um þegar viðkomandi sitji á bar. Hann bætir við: „ ... delerandi, og eys óhróðri yfir mann og annan. Ríkisstjóri Puerto Rico sagði nýskeð af sér vegna svipaðs máls. En það má samt reyna.“

Egill segir að þræta gefist stundum býsna vel í stjórnmálum nútímans, þar sem algjörlega er snúið á haus hvað sé satt og hvað er logið. Egill bætir við:

„Reyndar hef ég verið að gæla við þá kenningu að Miðflokksmenn hafi gert mistök dagana eftir Klausturuppákomuna. Þeir sýndu iðrun, virtust sumir alveg bugaðir, létu sig hverfa.

Fylgið minnkaði vissulega, en spurningin er – minnkaði það vegna Klaustursummælanna eða vegna viðbragða Miðflokksmanna sem voru eins og út úr karakter, bljúgir og auðmjúkir.

En ef þeir hefðu látið þetta eins og vind um eyru þjóta – verið uppástöndugir og kokhraustir. Tekið trumpinn á þetta? Fylgi Trumps minnkar ekki þótt hann gangi fram af sumum kjósendum.“

Þá segir Egill að lokum:

„Fylgið var alltént ekki lengi að aukast aftur eftir Klausturmálið. Nú er það meira en nokkru sinni fyrr og gæti jafnvel aukist enn á næstunni. Klaustursmálið hefur líka haft þau áhrif að Miðflokkurinn er orðinn miklu eindregnari í sinni lýðhyggju en áður – það er varla nein tilviljun.“

Nýjast