Dagur segir SI vantelja 400-500 íbúðir sem séu í byggingu í Reykjavík

Dagur segir SI vantelja 400-500 íbúðir sem séu í byggingu í Reykjavík

„Reykjavík er eina sveitarfélagið þar sem íbúðum í byggingu fjölgar miðað við nýja talningu Samtaka iðnaðarins sem birt var í morgun. Líkt og áður telja SI ekki stúdentaíbúðir og hjúkrunaríbúðir þannig að á bilinu 400-500 nýjar íbúðir í byggingu vantar inn í tölurnar frá Reykjavík.“

Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í færslu á Facebook-síðu sinni, og leggur þar út af greiningu SI á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum.

Í talningu SI segir að samkvæmt nýjustu talningu samtakanna séu 6.009 íbúðir í byggingu á svæðinu. Það séu 2,4 prósent færri íbúðir en hafi verið í byggingu á svæðinu í síðustu talningu SI, sem gerð var í mars.

„Talningin sýnir að viðsnúningur er í íbúðabyggingum en á sama tíma í fyrra mældist 18,6% fjölgun íbúða í byggingu á svæðinu. Fækkun er fyrst og fremst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en viðlíka fjöldi af íbúðum er nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í mars sl. samkvæmt talningunni. Niðurstaða talningarinnar endurspeglar þéttingastefnu stærstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríflega helmingur allra íbúða í byggingu í Reykjavík og Kópavogi eru á slíkum reitum,“ segir í greiningunni.

Þar segir einnig að talningar SI á íbúðum í byggingu hafi undanfarin ár borið með sér að framundan væri vaxandi fjöldi fullbúinna íbúða að fara á markað. „Nú virðast hins vegar vera ákveðin vatnaskil í þessum tölum sem benda til þess að fjölda fullbúinna íbúða kunni að fækka á næstu misserum. Endurspeglast þetta í spá SI um fjölda fullbúinna íbúða 2019-2021.“

Líkt og áður segir gagnrýnir Dagur framsetningu SI og ítrekar að í tilfelli Reykjavíkurborgar sé um fjölgun íbúða í byggingu um að ræða. „Það væri kostur ef gögnin væru birt jafn ítarlega og gert var fyrir nokkrum árum en þá var jafnframt hægt að skoða þau á kortagrunni. Punkturinn varðandi fjölgun íbúða í Reykjavík kemur ekki fram í fréttatilkynningu né í fréttum hingað til en hægt er að sjá hana á skýringarmynd þegar greiningin er skoðuð,“ segir hann.

Nýjast