Hef engar kjaftasögur heyrt um að ég sé óléttur

Þrátt fyrir að vera nokkuð framsettur hef ég engar kjaftasögur heyrt um að ég sé óléttur. Reyndar heyri ég aldrei neinar kjaftasögur um mig og finnst það nokkuð merkilegt því ég veð frægðarelginn upp undir efstu höku.

Mér finnst raunar að kjaftasögum sé svo misskipt að jaðri við stjórnarskrárbrot því eins og þar stendur: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þegar horft er til þessa og rýnt í kjaftasögudreifingu og skoðaðir kjaftasöguþegar þá kemur í ljós hróplegt misrétti. Það er alltaf sama fólkið sem sagðar eru af kjaftasögur. Og það sem meira er, það er alltaf sama fólkið sem heyrir kjaftasögur um sjálft sig.

Stundum er eins og Borgarskjalavörður hafi um mig allar upplýsingar í PDF-skjali sem ekki er hægt að opna. Um mig ríkir stæk þögn. Ég gerði mitt besta til þess að opinbera sjálfan mig með því að deila persónuleikaprófinu frá Kára á Facebook. En þar var engin tíðindi að sjá, - bara það að ég er gjörbrjálaður maður.

Ég hef oft hugsað um þetta „... og stöðu að öðru leyti“ sem lokar þessari mannréttindaklásúlu stjórnarskrárinnar. Ætli ég sé þarna? Í þessari ókennilegu stöðu sem ekki er hægt að orða nema svona vítt og almennt – og því fari ekki af mér neinar kjaftasögur?

Ég gæti auðvitað gert eins og svo margir aðrir sem brotið er á með svipuðum hætti á degi hverjum, ég gæti sagt óljósar fréttir af sjálfum mér sem ég þættist hafa heyrt hér eða þar – utan af mér. Ég gæti ...

- þar missti ég vatnið.

Birtist áður í Fréttablaðinu