Bjarni Ben um barneignir á opnum fundi: „ég get meir“

Kjördæmavika stendur nú yfir og er Sjálfstæðisflokkurinn á hringferð um landið. Ferð Sjálfstæðismanna hófst með opnum fundi í miðbæ Reykjavíkur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hélt þar ræðu.

Bjarni lýsti yfir miklum áhyggjum yfir því að nú væri að hægja á hagkerfinu, ferðamenn komi ekki í jafn miklum mæli og þá hefur loðnan ekki látið sjá sig. Bjarni hafði þó einna mestar áhyggjur af öldrun þjóðarinnar og breytingarnar væru hraðar. Bjarni sagði:

„Við erum að sjá á næstu örfáu árum mjög stórar kynslóðir sem eru fæddar fyrir 1960 koma á lífeyrisaldur. Hugsið ykkur þetta, á næstu fimm árum munu þeir sem eru 67 ára og eldri fjölga um 25 prósent. Það eru 10 þúsund manns sem bætast við sem lífeyrisþegar.“

Bætti Bjarni við að stjórnvöld yrðu að koma í veg fyrir að „við yrðum undir eins konar öldrunarvaltara sem sífellt er að taka meira til sín.“ Þá vék Bjarni talinu að fæðingartíðni þjóðarinnar og sagði að ein ástæða þess til að hafa áhyggjur væri vegna þess að fólk eignaðist ekki eins mörg börn og áður. Bjarni sagði:

„Ég er nú búinn að reyna að gera mitt í þeim efnum, en ég get ekki meir. Nú er ég orðinn fimmtugur og þetta er komið ágætt hjá mér,“ sagði Bjarni og bætti við:

„Eða ég GET meir, bara svo það sé á hreinu,“ sagði Bjarni og uppskar mikinn hlátur og bætti við: „Bara svo allir séu með það alveg á hreinu.“