Bænastund í hafnarfjarðarkirkju

Lögreglunni barst tilkynning um klukkan níu í gærkvöldi, um að bíll hefði farið í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði. Þrír voru í bílnum. Mikill viðbúnaður var á vettvangi og meðal annars voru kafarar frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar kallaðir út. Tveir voru fluttir á gjörgæslu og þá var sá þriðji einnig fluttur á spítalann en í tilkynningu frá lögreglu segir að líðan hans sé eftir atvikum.

Samveru og bænastund verður haldin í Hafnarfjarðarkirkju í dag klukkan 16:00. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarkirkju segir:

„Vegna slyssins við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi verður samveru- og bænastund í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. janúar klukkan 16:00.

Prestar Ástjarnarkirkju, Hafnarfjarðarkirkju og Fríkirkjunnar í Hafnarfirði verða á staðnum ásamt áfallateymi Rauða krossins á Íslandi.

Við minnum einnig á hjálparsíma Rauða krossins 1717.“