Auðvitað er það pólitík að vilja ekki framgang frjálsra fjölmiðla

Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns setur heldur betur í brýrnar þegar talið berst að stöðu einkarekinna fjölmiðla í Ritstjóraspjalli kvöldsins á Hringbraut og segir það auðvitað ekkert nema pólitík að vilja ekki framgang frjálsra fjölmiðla.

Og sneiðinni virðist beint upp í Hádegismóa þar sem stöku menn eru sagðir vilja verja hagsmuni fárra fremur en klassíska blaðamennsku, en þar óttist menn öðru fremur að öflugir og óháðir miðlar taki af þeim völdin. Því leggist menn þar á bæ á móti fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur og pótintátar íhaldsins trommi svo boðskapinn upp á Alþingi.

Og hana nú.

Annars byrjar talið á andrúmsloftiinu suður með sjó á tímum umbrota og náttúruvár - og eins að innviðakerfi landsins, þeim skandal að yfir 30 ára gamall Vesturlandsvegur sé ennþá rússnesk rúlletta og að Reykjanesbrautin sé ekki enn orðin tvíbreið alla leið, næstum tveimur áratugum eftir að breikkun hennar hófst.