Ástæða þess að íslendingar flýja fátækt og þrældóm: „þau fátækustu [horfa] í tóman ísskápinn eða eru í efnahagslegri útlegð“

„Fólk sem kemst ekki til læknis, á ekki að borða, stundum dag eftir dag, og við gerum ekkert þessu fólki til hjálpar. Eða svo gott sem. Ríkisvaldið lokar á þetta fólk. Svo er annað fólk. Líka fátækt sem er í efnahagslegri útlegð frá Íslandi. Það fátæka fólk hafði efni á að koma sér til annars lands. Þar sem er mun auðveldara að ná en endum saman. Margt af því fólki er á Spáni. Ég er þar og sé þetta fólk oft.“

Þetta segir Sigurjón M. Egilsson ritstjóri midjan.is. Þar fjallar hann um flótta Íslendinga til Spánar. Sá hópur er að mestu byggður upp á eldri borgurum og öryrkjum sem treysta sér ekki til að draga fram lífið á Íslandi á þeim bótum sem þeim er úthlutað af ríki og sveitarfélögum. Sigurjón segir:

„Öfugt við það sem var þegar það var enn þá heima, er að hér getur það lifað á ellilífeyri eða örorkubótum sem var vonlaust að gera heima. En það er hreint út sagt ömurlegt að geta ekki verið nærri eigin afkomendum, öðrum ættingjum og vinum. Segja má að þetta fólk hafi verið rekið að heiman.“

\"\"

Mynd sem Sigurjón birti en þar segir: Verð í kjötbúð á Spáni: Mjólk 127 krónur. Stórt snittubrauð 41 króna, Átta kókómjólkur fernur 191 króna, krossant 41 króna og 12 kókdósir 1.067 krónur.

Þá bendir Sigurjón á að Ísland hafi fest sig í sessi sem eitt allra dýrasta land veraldar. Þá segir Sigurjón einnig:

„Dýrtíðin á Íslandi er skelfileg. Fyrir það fólk sem er á lægri launum eða bótum er lífið á Íslandi hreinn þrældómur.“

Þá vitnar Sigurjón í skrif Hallgríms Óskarssonar:

„Vinstri græn. Já, vinstri græn. Þau hafa sýnt og sannað að þeim er ekki annt um fátækasta og verst setta fólkið. Eru að verða einsmáls flokkur. Miðhálendisþjóðgarðsflokkur. Á meðan horfa þau fátækustu í tóman ísskápinn eða eru í efnahagslegri útlegð.“

 Frétt Miðjunnar í heild sinni.