Þér að kenna þegar Jón fer að gráta: Alþingismennirnir sem lögðu í einelti – „Vælukjóar, ekki nógu hot, eða apakettir“

Þér að kenna þegar Jón fer að gráta: Alþingismennirnir sem lögðu í einelti – „Vælukjóar, ekki nógu hot, eða apakettir“

„Ég hóf grunnskólagöngu rétt upp úr aldamótum. Á þeim tíma var herferðin gegn einelti í fullum gangi. Í hverri einustu kennslustofu sem ég sat í meðan á grunnskólagöngu minni stóð var slíkt plakat, Eineltishringurinn, einhvers staðar uppi á vegg.“

Þannig hefst pistill eftir Mars Proppé á vef Fréttablaðsins. Þar fjallar hún um nokkra Alþingismenn sem hafi gerst sekir um einelti eða horfa framhjá án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir gerundurna. Mars taldi, eftir að hafa lokið grunnskólagöngu og meira til að hlutirnir hefðu lagast. Þegar Mars var í skóla var niðurstaðan þessi:

„ ... ef maður stendur ekki aktíft upp gegn misrétti þá er maður partur af vandamálinu.“

 

En samkvæmt Mars er staðan litlu betri nú og þá komist Alþingismenn upp með að leggja aðra í einelti. Mars segir:

„Eineltismál hafa verið til umræðu af og til seinustu áratugina þótt krakkar hafi ekki getað mótað hugmyndir sínar út frá grafískri hönnun eins og í dag. Þess vegna kom niðurstaða siðanefndar Alþingis mér svo rækilega á óvart núna um daginn. Klaustursmálið, sem hefur drattast áfram í fjölmiðlum og hjörtum þjóðarinnar frá því að fyrstu menn fóru að setja upp jólaskreytingar í vetur, hefur nú loks náð endastöð sinni í umfjöllun innan veggja Alþingis.“

Mars bendir á að niðurstaðan sé sú að aðeins tveir þeirra sex sem sátu til borðs og töluðu illa um samstarfsfólk sitt, jafnt sem ókunnuga, hafi verið fundnir sekur um brjóta siðareglur Alþingis.

„Þrátt fyrir að þetta sé í raun einfaldasta birtingarmynd eineltis, baktal í hópi þegar málsaðilar eru ekki viðstaddir, þá virðist vera að appelsínugulu karlarnir (sjá plakat) í þessu samhengi séu lausir allra mála. Ef svona mál kæmi inn á borð skólastjórna í flestum grunnskólum landsins væri eineltisáætluninni einfaldlega hrint af stað og rætt væri við gerendur og foreldra, ef til þess kæmi. En það liggur víst ekki eins skýrt fyrir hvað skuli gera þegar gerendur eru hátt settir alþingismenn og í ofanálag fólk sem á peninga og hefur völd í samfélaginu. Þá er þetta pólitískt mál en ekki eineltismál.“

Mars segir að skilaboðin sem unga kynslóðin fær með niðurstöðu siðanefndar séu einfaldlega þau að eineltishringurinn hættir að vera til ef viðkomandi nær að vinna sig upp í valdastöðu í samfélaginu. Mars segir:

„Samkvæmt siðareglum Alþingis er í lagi að vera gulur karl, svo lengi sem þú ert ekki rauður. Þannig er munurinn á siðareglum Alþingis og siðareglum skólabarna sá að á leikvellinum ertu ábyrgur gjörða þinna jafnvel þótt þú sitjir hjá en ef þú ert alþingismaður þá er allt í lagi að vera appelsínugulur kall svo lengi sem þú ert ekki rauður.“

Mars segir að lokum:

„Ef þú ert grunnskólabarn og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að Jóni með gleraugun þá er það þér að kenna, að minnsta kosti að hluta til, þegar hann fer að gráta. En ef þú ert alþingismaður og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að fötluðum, að hinsegin fólki, að konum, þá er það ekki þér að kenna þegar heilu minnihlutahóparnir fara að gráta heima hjá sér á kvöldin. Nei, því þau eru bara vælukjóar, ekki nógu hot, klikkaðar kuntur eða apakettir.“

Nýjast