Alræmdur skíthæll

„Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem svipti hulunni af meintum mútugreiðslum sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu, var í viðtali við Kastljós fyrr í vikunni. Var Jóhannes spurður út í viðbrögð Samherja við málinu sem hafa helst virst felast í ítrekuðum tilraunum til að sverta mannorð Jóhannesar.

„Þeim er velkomið að reyna að villa um fyrir fólki,“ sagði Jóhannes af stillingu.

Þannig hefst pistill eftir Sif Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu. Þar fjallar hún um upptöku sem vr lekið af Jóhannesi þar sem má heyra hann hóta að drepa fyrrverandi konu sína og krefja hana um sex milljónir. Sif segir:

„Isaac Newton er flestum kunnur. Newton var einn fremsti vísindamaður sögunnar. Hann var líka alræmdur skíthæll. Hann var undirförull og hörundsár egóisti sem lagði sig fram við að eyðileggja orðspor annarra vísindamanna um leið og hann upphóf sjálfan sig. Annar frægur skíthæll var nóbelsverðlaunarithöfundurinn V. S. Naipaul. Þegar Naipaul lést í fyrra, 85 ára að aldri, spratt upp umræða um hvort hægt væri að aðgreina persónu rithöfundarins frá afrekum hans en Naipaul var þekktur fyrir hroka, kynþáttahatur, kvenfyrirlitningu og ofbeldi gegn konum.

Því miður, fyrir forsvarsmenn Samherja, skiptir spurningin ekki nokkru máli þegar kemur að stóra mútumálinu. Tilraunir breskra íhaldsmanna til að sverta mannorð móður veiks drengs gerðu ekki annað en að beina sjónum að innræti þeirra sjálfra. Þótt Samherjamenn eyði hverjum einasta milljarði sem þeir hafa grætt á nýtingu náttúruauðlinda Íslendinga í þjónustu almannatengslafyrirtækja mun þeim aldrei takast að hreinsa mannorðið með því að ata aðra auri. Því hvort sem Jóhannes Stefánsson er móðir Teresa endurholdguð eða sjálfur skrattinn breytir það ekki staðreyndum málsins. Við getum strokað Ísak Newton út úr sögubókunum fyrir að vera skíthæll. Slíkt hefur þó engin áhrif á virkni þyngdaraflsins.“