Ágústa tilheyrir lágstétt og flutti í 10 fermetra herbergi: „ég hélt að ég tilheyrði millistétt en það eru bara tvær stéttar, lágstétt og hástétt“

„Ég fór út á vinnumarkaðinn 16 ára gömul. Ég vann á kassa í Bónus, American Style og MS ís í þrjú ár. Hérna hef ég verið Búkollubílstjóri síðan 2016 í styttri og lengri tíma. Þetta eru farmflutningar, flytjum úrgang og önnur efni á milli staða. Búkolla vegur allt upp í 70 tonn með farmi og það má ekki aka henni út á malbikinu.“

Þetta segir Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir, bílstjóri á farmflutningabifreið, en saga hennar birtist á síðunni Fólkið í Eflingu, en sögurnar af íslensku fólki hafa vakið mikla athygli. Við gefum Ágústu orðið:

„Fyrir utan að vera með próf á Búkollu þá er ég með próf á lyftara og það er á plani hjá mér að taka próf á gröfuna. Ég er búin með bóklega þáttinn en vantar verklega þjálfun. Það er smá hræðsla í manni að maður gæti skemmt gröfuna,“ segir Ágústa Kolbrún og bætir við:

„Fólkið mitt er duglegt. Mamma hefur unnið í Kjötsmiðjunni síðan ég var tíu ára og systur mínar eru snyrtifræðingar. Báðir afar mínir voru pípulagningamenn og þegar ég ætlaði að gera upp baðherbergið hjá mér þá ákvað ég að læra sjálf pípulagnir og skellti mér í nám.“

Ágústa Kolbrún lenti í bílslysi árið 2011 og notaði bæturnar til að kaupa íbúð í Breiðholti. Hún fékk einnig aðstoð frá fjölskyldunni.

„Leigumarkaðurinn setur fólk í þvílík vandræði og margir hafa búið hjá mér sem hafa verið í einhverskonar millibilsástandi, annaðhvort að safna fyrir eða bíða eftir íbúð. Ég minnist þess ekki að ég hafi nokkur tímann búið ein,“ segir hún og bætir við:

„Ég ætla að leigja íbúðina mína og flytja inn með kærastanum í 10 fermetra herbergi sem foreldrar hans eiga. Ég tilheyri lágstétt og ekkert má út af bera. Ég hélt að ég tilheyrði millistétt en það eru bara tvær stéttar, lágstétt og hástétt. Millistéttin er að þurrkast út og fólk færist nær þeim ás sem liggur næst þeim.“

Útgjöldin Ágústu eru ekki mikil og hún kveðst kunna að spara.

„Ég reyki ekki og drekk áfengi kannski einu sinni á ári. Að vísu fékk ég upp úr þurru brjálaðan áhuga á skóm og ef ég sé fram á að eiga pening þá kaupi ég mér skó, ég elska hælaskó, og á þrjátíu pör af hælaskóm. Ég er meira að segja með glerskáp og nokkur skópör til sýnis í honum. Ég hafði aldrei hugsað áður um tísku né útlit, langt því frá þegar þessi áhugi á skóm blossaði upp úr þurru.“

Þá segir hún að taka þurfi á húsnæðisvandanum og gagnrýnir að ekki megi vera með gæludýr í leiguíbúðum.

„Síðan finnst mér fáránlegt hvernig farið er með öryrkja og gamla fólkið sem byggði upp landið okkar.“