Á íslandi hefði karl steinar borgað milljón: sparaði sér rúmlega 700 þúsund krónur

„Viðgerðin hefði kostað milljón hérna heima“.

Þetta segir Karl Steinar Óskarsson, verkefnisstjóri hjá Lax-á, í samtali við Hringbraut en hann ákvað að fara til Gdansk í Póllandi til að sækja sér tannlæknaþjónustu. Hringbraut hefur áður fjallað um þjónustu Kreativ Dental í Ungverjalandi en þangað hefur fjöldi Íslendinga farið til þess að spara sér tannlæknakostnað. Karl Steinar er einn af fjölmörgum Íslendingum sem lætur ekki bjóða sér það verð sem íslenskir tannlæknar rukka fyrir þjónustu sína en hann settist í stólinn hjá Dentineo.eu og sparaði sér með því rúmlega sjö hundruð þúsund krónur og ferðaðist um leið erlendis.

Karl Steinar lýsir heimsókninni á þessa leið:

„Það sem gera þurfti var slatti en á fyrsta degi var tekin panorama röntgen af tanngarðinum og í framhaldinu fékk ég ítarlega myndskreytta áætlun. Svo var hafist handa.

Tvær rótarfyllingar
Tvær nýjar krónur
Skipt út öllu amalgami ( silfrinu )
Tannhreinsun.

Fyrir þetta greiddi ég 270.000.“

Hann bætir við að innifalið var allur kostnaður við að ferðast frá hóteli og á tannlæknastofuna og aftur til baka. Karl Steinar segir í samtali við Hringbraut að á Íslandi hefði kostnaðurinn verið í kringum eina milljón. Karl Steinar greindi fyrst frá ferð sinni á Facebook en þar sagði hann:

„Og það sem mér fannst merkilegast er að öll tæki á stofunni er þau nýjustu á markaðnum. Og ég hef aldrei upplifað eins góðan tannlækni fyrr. Vildi bara deila þessu með ykkur ef einhver er að pæla í svona ferð.“