Völvuspá Náttfara: BJARNI LEIÐIR NÝJA RÍKISSTJÓRN OG VG HRAPAR

Náttfari er berdreyminn. Það hefur margoft komið fram að draumar hans í morgunsárið hafa raungerst.

Hann ætlar nú að deila með lesendum spá sinni fyrir komandi ár um stöðu stjórnmála og efnahagslífs á Íslandi þegar líður á árið. Köllum það Völvuspá Náttfara en hún er byggð að draumum sem honum hefur auðnast að leggja á minnið.

Samkvæmt draumnum mun ríkisstjórninni takast að halda út fram að kosningum í september 2021. En oft mun það standa tæpt því samstarfið er farið að fúna og þreytu er tekið að gæta hjá stjórnmálamönnum eins og felstum landsmönnum. En Stjórnin situr fram að kosningum með herkjum. Minnir á ríkisstjórn Jóhönnu að því leyti. Þá fengu báðir stjórnarflokkarnir ráðningu í næstu kosningum. Nú fær flokkur forsætisráðherrans ærlega ráðningu og getur prísað sig sælan að haldast inni á þingi með einungis fimm þingmenn að kosningum loknum. Þrír þeirra munu koma úr Reykjavík, einn úr Kraganum og annar úr Norð-Austurkjördæmi. Varaformaður flokksins nær ekki kjöri ásamt þremur núverandi þingmönnum VG.

Völvu Náttfara sýnist að kosningarnar í september fari nokkurn vegin svona: Sjálfstæðisflokkurinn fær sautján þingmenn, bætir við sig einum frá síðustu kosningum. Hann kemur í Reyjavík. Annað óbreytt varðandi dreifingu þingmanna. Viðreisn fær fjórtán prósent fylgi og níu þingmenn eins og Framsókn sem einnig fær níu þingmenn en út á tólf prósent. Það undirstrikar misvægi atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis en Viðreisn sækir styrk sinn í þéttbýlið á meðan Framsókn er sem fyrr landsbyggðarflokkur. Þessir þrír flokkar mynda svo ríkisstjórn með þrjátíuogfimm  þingmenn á bak við sig. Bjarni Benediktsson leiðir nýja ríkisstjórn til valda þann 7. október 2021. Yfirlýst stefna hennar er að sinna stóru málunum varðandi endurreisn efnahags-og atvinnulífsins eftir þann skaða sem veiruvandinn olli á árinu 2020.

Nýja ríkisstjórnin verður skipuð svona: Bjarni forsætisráðherra, Guðlaugur Þór sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Áslaug Arna verður áfram dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún tekur við félags-og barnamálaráðuneytinu og Jón Gunnarsson verður umhverfisráðherra. Frá Viðreisn koma Þorgerður Katrín utanríkisráðherra, varaformaðurinn Daði Már Kristófersson verður ferðamála-iðnaðar-og nýsköpunarráðherra og Hanna Katrín tekur við hinu erfiða ráðuneyti heilbrigðismála. Sigurður Ingi verður fjármálaráðherra, Lilja Dögg heldur áfram með menntamálin og Ámundur Einar tekur við samgöngu -og sveitastjórnarráðuneytinu. Unnur Brá Konráðsdóttir verður forseti Alþingis eftir að hafa unnið efsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Vinstri græn ná einungis fimm þingmönnum, Miðflokkurinn fær sex þingmenn, Samfylkingin fær níu menn kjörna, Píratar ná fimm mönnum og Sósíalistaflokkurinn rétt nær að koma fulltrúum sínum inn á Alþingi og fær þrjá menn kjörna út á fimm prósent fylgi. Flokkur fólksins fellur út af þingi og önnur framboð fá ekki menn kjörna.

Mjög vel mun ganga að bólusetja landsmenn í byrjun árs. Það mun strax auka bjartsýni og efla atvinnulífið smátt og smátt fram eftir árinu. Samhliða því mun atvinnuleysi minnka og fara niður í sex prósent næsta sumar.Við það mun hagur fólks og fyrirtækja vænkast. Ferðaþjónusta, flug og tengdar atvinnugreinar munu eflast hægt og bítandi þó mikið vanti upp á að allir komist af stað. Búast má við að margir hætti starfsemi og þurfi að sætta sig við gjaldþrot og eignamissi.

Tekist verður á um það hvort stefna verður mörkuð um að fresta uppgjöri á veiruvandanum með áframhaldandi skuldsetningu ríkisins eða með því að selja ríkiseignir sem þurfa ekki að vera í eigu hins opinbera. Í því sambandi eru bankarnir nefndir og mikill fjöldi fasteigna í eigu ríkisins.

Undir lok árs verður mikill hugur í landsmönnum og bjartsýni ríkjandi. Meðal annars á hlutabréfamarkaði þar sem Icelandair verður hástökkvari ársins og endar í genginu fjórum sem er meira en tvöföldun frá byrjun endurreisnarársins 2021. Talað verður um ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem Endurreisnarstjórnina