Vinstri, hægri, tja, tja, tja ...

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er einn gesta Jóns G. Haukssonar í kvöld. Kosningabaráttan í Reykjavík einkenndist af einvígi Eyþórs Arnalds og Dags B. Eggertssonar. Þau ræða stöðuna í Reykjavík og hvort Viðreisn snúi sér til hægri eða vinstri. Stefanía telur líklegra að Viðreisn skoði fyrst vinstri vænginn þótt flokkurinn hafi gert ákall um breytingar á stjórn borgarinnar. Samhljómur sé í nokkrum stórum málum. Þau ræða einnig hvort næsti borgarstjóri verði utan flokka og sóttur út í bæ taki Viðreisn skrefið til vinstri og að sá einstaklingur þurfi að vera sterkur samnefnari flokkanna sem komi að meirihlutanum. Einnig er komið inn á þann kost í stöðunni að í raun hafi vinstri blokkin 11 borgarfulltrúa í upphafsstöðunni, þ.e. með Sósíalistaflokknum, og gæti þess vegna lagt áherslu á að ná Flokki fólksins inn í blokkina verði kröfur Viðreisnar of harðar en formaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði á kosningakvöldinu að Viðreisn myndi selja sig dýrt.