Vilhjálmur skoðaði tekjublað Frjálsrar verslunar eftir viðtalið við Ásdísi: „Hafið nú vit á að þegja“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hvetur Ásdísi Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, til að líta aðeins í eigin barm.

Ásdís er gestur Dægurmála á mbl.is ásamt Friðriki Jónssyni, formanni BHM, en þar voru kjarasamningar meðal annars til umræðu. Segir hann að Ásdísi hafi verið nokkuð tíðrætt um höfrungahlaup og of miklar launahækkanir og ýjað að því að verkalýðshreyfingin væri óábyrg.

„Það er mikilvægt fyrir aðila sem eru að gagnrýna höfrungahlaup og verkalýðshreyfinguna að líta „örlítið“ í eigin barm, en lífskjarasamningurinn sem Samtök atvinnulífsins gerðu gerði ráð fyrir frá 2019 til 2020 að laun hjá fólki sem ekki tæki laun eftir kauptöxtum myndu hækka um 50.250 krónur,“ segir Vilhjálmur sem fletti tekjublaði Frjálsrar verslunar eftir viðtalið.

Segir hann að samkvæmt því hafi laun aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hækkað um 268.000 kr. á mánuði, eða 218.000 meira en lífskjarasamningurinn kvað á um.

„Mér sýnist miðað við þessa launahækkun hjá aðstoðarframkvæmdastjóranum að þetta sé ekki höfrungahlaup heldur spretthlaup miðað við þær launahækkanir sem samið var um í lífskjarasamningum.“

Vilhjálmur er ekki ánægður með Ásdísi eða aðra þá sem gagnrýna verkalýðshreyfinguna fyrir óraunhæfar kröfur.

„Það er svo mikil hræsni í fólki sem kemur fram svo ábyrgðarfullt í viðtöl og gagnrýnir kröfugerðir og launahækkanir verkafólks og tekur svo sjálft sem samsvarar 76% af lágmarkslaunum á Íslandi í launahækkanir á tveggja ára tímabili. Langt umfram það sem Samtök atvinnulífsins sömdu um við stærsta hluta íslensks launafólks.“

Vilhjálmur beinir svo þessum skilaboðum til þeirra sem hæst hafa:

„Við áhrifafólk í íslensku samfélagi sem hefur tekið langt um hærri launahækkanir en samið var um í lífskjarasamningum og er í sífellu að gagnrýna verkalýðshreyfinguna opinberlega um hvað hún sé óábyrg vil ég segja þetta: hafið þið nú vit á því að þegja, því það eruð þið sem eruð óábyrg ekki íslenskt verkafólk!“