Vil­hjálmur segir stöðuna mun verri en í hruninu: „Vægast sagt hroll­vekjandi“

Vil­hjálmur Birgis­son, verka­lýðs­foringi á Akra­nesi, segir stöðuna á vinnu­markaðnum nú þegar vera orðna verri en hún varð í hruninu. Ljóst sé að finna þurfi leiðir til að verja störf og leggur hann til að mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyris­sjóð verði lækkað tíma­bundið.

„Þessi staða sem er að teiknast upp á ís­lenskum vinnu­markaði er vægast sagt hroll­vekjandi enda er allt­of stór­hluti tann­hjóla at­vinnu­lífsins við það að stöðvast. En í dag eru 23 þúsund manns komnir í skert hluta­starf og upp­undir 15 þúsund á fullar at­vinnu­leysis­bætur,“ skrifar Vil­hjálmur.

„Þessi staða á vinnu­markaðnum er orðin nú þegar mun verri en hún varð í hruninu og það er ljóst að við verðum að finna leiðir til að verja störfin, verja kaup­máttinn og verja heimilin. Við verðum að finna leiðir til að verja lífs­viður­væri og síðast en ekki síst at­vinnu­öryggi launa­fólks eins og kostur er á meðan þessi far­aldur gengur yfir.“

Vil­hjálmur segir að það liggi fyrir að fjöl­margir at­vinnu­rek­endur hafi óskað eftir því við stéttar­fé­lögin að við þessar for­dæma­lausu að­stæður verði að fresta launa­hækkunum sem eiga að koma til fram­kvæmda á morgun.

„Ég hef alltaf sagt að það komi ekki til greina, enda þarf launa­fólk á þessum launa­hækkunum á að halda. Hins vegar er ég til­búinn að fara aðra leið vegna þess skelfingar á­stands sem ríkir á vinnu­markaðnum vegna far­aldursins,“ skrifar Vil­hjálmur og heldur á­fram:

„Sú leið byggist á því að í stað þess að fresta launa­hækkuninni þá verði mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyris­sjóð lækkað úr 11,5% í 8% tíma­bundið meðan far­aldurinn gengur yfir. En mark­miðið með þessari leið væri að verja at­vinnu­öryggi launa­fólks og tryggja um leið að launa­hækkanir skili sér til launa­fólks.“