Vilhjálmur fengið nóg af því að peningar séu færðir frá almenningi til fjármálaelítunnar

„Munum að þetta fyrirkomulag Seðlabankans um að draga úr einkaneyslu launafólks til að ná niður verðbólgu er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem auðveldlega er hægt að breyta,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í pistli á Facebook-síðu sinni.

Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu eru Vilhjálmi hugleiknar en hann vill að farin verði önnur leið til að draga úr einkaneyslu almennings. Með þeim hætti væri hægt að koma í veg fyrir að fjármagn sé fært frá almenningi til „fjármálaelítunnar“ eins og Vilhjálmur segir.

„Nú segir Seðlabankastjóri að stýrivaxtahækkun sé stýritæki sem þeir beita m.a til að draga úr einkaneyslu til að ná niður verðbólgu. Það má vera rétt, en er nauðsynlegt að gera það með því að ástunda miskunnarlausa eignatilfærslu frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins. Getum við tekið upp nýtt fyrirkomulag sem Seðlabankinn hefði til að draga úr einkaneyslu almennings til að ná verðbólgu niður.“

Það er skemmst frá því að segja að Vilhjálmur er þeirrar skoðunar að þetta sé vel hægt að gera án þess að fjármagn renni ekki í milljarðavís til fjármagnseigenda í hvert sinn sem stýrivextir eru hækkaðir.

„Ég tel að það eigi að breyta þessu þannig að ekki sé verið að draga úr einkaneyslu almennings með þeim hætti að flytja jafnvel 16 milljarða frá heimilunum eins og þessar vaxtahækkanir munu leiða af sér. Það væri miklu skynsamlegra að breyta þessu þannig að Seðlabankinn hefði heimild til að hækka framlag í séreignasjóði af launatekjum til að draga tímabundið úr einkaneyslu,“ segir hann.

Vilhjálmur segir ljóst að um það myndi ríkja meiri sátt ef Seðlabankinn hefði heimild til að gefa það út að allt launafólk myndi til dæmis auka framlag sitt tímabundið í séreignasjóð um 0,75% af sínum heildarlaunum til að slá tímabundið á einkaneysluna.

„Upphæðin færi inn á séreignareikning viðkomandi launamanns, en með því væri ekki verið að færa milljarða frá almenningi yfir til fjármálakerfisins heldur inn á reikning hjá einstaklingum sem myndi draga úr einkaneyslu. Fjármunirnir væru eftir sem áður eign fólksins,“ segir hann.

Vilhjálmur spyr svo hvaða sanngirni sé fólgin í því að það séu bara skuldsett heimili og fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á vaxtahækkunum sem á að draga úr einkaneyslu. Á sama tíma leggi þeir þeir sem skuldlausir eru ekkert til málanna við að ná verðbólgunni niður.

„Ég tel í það minnsta fráleitt að verið sé að færa milljarða til fjármálakerfisins þegar það liggur fyrir að hægt væri að finna önnur stýritæki til að draga úr einkaneyslu almennings án þess að verið sé að færa milljarða frá þeim yfir til fjármálaelítunnar. Það er morgunljóst að þessi leið myndi tryggja að ekki sé ástunduð grimmileg eignatilfærsla frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins í skjóli þess að draga þurfi tímabundið úr einkaneyslu almenningsins til að kveða niður verðbólguna.“

Vilhjálmur segir að það eina sem þurfi til að breyta þessu sé kjarkur, vilji og þor. Að sjálfsögðu muni fjármálaelítan leggjast gegn svona hugmyndum „þar sem komið yrði í veg fyrir að fjármálakerfið myndi fá að vaða ofan í vasa vinnandi fólks og skuldsettra heimila með skítugum krumlum sínum í hvert sinn og Seðlabankinn ákveður að hækka stýrivextina.“