Vilhjálmur ætti að beina gagnrýni sinni að vinstri stjórninni

„Gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálum undanfarin kjörtímabil,“ segir fyrrum borgarstjóri um fyrirhugaða borgarlínu ríkisins og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Svo segir i blaðagrein frá í dag.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson veit betur en svo að halda því fram að borgarlínan sé einkamál Reykjavíkurborgar. Því fer víðsfjarri og Vilhjálmur er alveg klár á því. Þess vegna verður að líta á orð hans sem tilraun til blekkinga sem er þessum farsæla stjórnmálamanni ekki til sóma. Vilhjálmur sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 28 ár, lengur en nokkur annar.

Vilhjálmur veit, eins og reyndar flestir, að borgarlínan er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóðir mun greiða bróðurpart kostnaðarins. Ef um einhverja „óráðsíu“ er þarna að ræða ætti fyrrum borgarstjóri að beina spjótum sínum að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Sjálfstæðisflokksins!

Þegar borgarlínan var samþykkt við hátíðlega athöfn fyrir tveimur árum var fulltrúum verksins stillt skælbrosandi upp til myndatöku. Fremst var Katrín Jakobsdóttir, leiðtogi vinstri stjórnarinnar, og næstir henni Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Þá kom borgarstjóri Reykjavíkur og loks fimm sveitarstjórar af höfuðborgarsvæðinu, allir flokksbundnir sjálfstæðismenn.

Þá er rétt að minna á að framkvæmdastjórn borgarlínuverkefnisins lýtur formennsku fyrrum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Árna Matthíesen. Framkvæmdastjórinn heitir Davíð Þorláksson, fyrrum formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Borgarlínan er fyrst og fremst á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur fyrrum borgarstjóri flokksins að vita mæta vel.

- Ólafur Arnarson