Vigdís greindist með krabbamein: „Ég sagðist fara til útlanda ef ég fengi ekki þjónustuna strax“

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, uppgötvaði að hún væri með brjóstakrabbamein fyrir einskæra tilviljun. Sagði hún við lækna að ef hún fengi ekki að fara strax í brjóstnám myndi hún fara til útlanda.

Þetta kemur fram í viðtali sem birt er á Facebook-síðu Krabbameinsfélagsins.

Árið 1978 heimsótti Vigdís móður sína á spítala. „Ég var á leiðinni út af spítalanum frá mömmu sem hafði brotnað og hitti vinkonu mína á ganginum. Ég spurði hvað hún væri að gera þarna og hún svaraði að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein og væri á leið í uppskurð. „Hvernig uppgötvaðirðu það?“ spurði ég og hún svaraði um hæl að hún hefði verið með inndregna geirvörtu. Skömmu síðar var ég í sturtu og uppgötvaði að ég var sjálf með inndregna geirvörtu. Þannig vaknaði grunur minn um að ég væri með brjóstakrabbamein. Það var fyrir algjöra tilviljun að ég skyldi hafa hitt þessa vinkonu mína á þessum tímapunkti.“

Vigdís fór skömmu síðar í brjóstnám. „Við þennan grun fer ég strax til læknis sem sendir mig í röntgenmyndatöku og þá kemur í ljós krabbamein í öðru brjóstinu. Ég hringi í mömmu sem lá enn á spítalanum og segi henni fréttirnar. Hún hvatti mig til að hringja í fyrrverandi mág minn, lækni, sem segir svo afskaplega skemmtilega við mig í símann: „Já, Vigga mín. Life is tough, but you are tougher.“ Þetta er setning sem hefur mótað mig og oft gefið mér styrk í lífinu. Og einmitt þarna, þegar mér er sagt að ég geti komið viku seinna, þurfi að bíða, veitir þetta mér styrk til að vera fylgin mér. Ég sagðist fara til útlanda ef ég fengi ekki þjónustuna strax. Ég myndi panta mér pláss í Danmörku eða Ameríku, og það varð úr að ég var send í brjóstnám strax.“