Hringbraut skrifar

Viðtalið við Kolbrúnu tekið af dagskrá: Frosti útskýrir ákvörðun Stöðvar 2

24. febrúar 2020
20:49
Fréttir & pistlar

Kolbrún Anna Jónsdóttir sendi nýverið frá sér bók sem fjallar um málaferli og dóm sem Ólafur William Hand hlaut árið 2018 fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Í kvöld stóð svo til að hún kæmi fram í Íslandi í dag til að segja sögu sína. Þættinum hefur nú verið slegið á frest eftir hávær og mikil mótmæli í grúppunni Líf án Ofbeldis. Hringbraut ræddi stuttlega við Frosta Logason, stjórnanda þáttarins, sem segir að þátturinn verði líklega tekinn til sýninga síðar í vikunni.

DV fjallaði ítarlega um mál Ólafs Hands á sínum tíma og greindi frá því að hann hefði verið fundinn sekur um líkamsárás á barnsmóður sína í héraðsdómi. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar sem á eftir að kveða upp sinn dóm. Í frétt DV var atvikalýsing með eftirfarandi hætti:

„Barnsmóðirin kom á vettvang með lögreglumanni og sambýlismanni sínum. Hún fór inn í hús Ólafs í óleyfi þegar Ólafur opnaði fyrir henni. Sagði barnsmóðirin í vitnaskýrslu að hún hefði gert það þegar hún heyrði barnið kalla til sín grátandi álengdar. Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg. Þá er eiginkona Ólafs ákærð fyrir að hafa hlaupið ítrekað á konuna og klórað hana. Hin ákærðu sökuðu barnsmóðurina um húsbrot og ofbeldi á vettvangi. Lögreglan féll hins vegar frá saksókn á hendur barnsmóðurinni og var sú ákvörðun síðar staðfest af ríkissaksóknara.

Ólafur neitaði að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki, hrint henni í gólfið eða ýtt henni utan í vegg. Hann segist hins vegar hafa gripið um hana ofarlega og lagt hana niður í gólfið. Fljótlega eftir umfjöllun DV var Ólafi sagt upp störfum hjá Eimskip.

Barnsmóðirin kvartaði undan verk í hálsi eftir atvikið, sársauka við að kyngja, hósta, blóðbragði í munni, sem og höfuðverk og verk í herðum og baki. Þá hafi blóð verið í þvagi hennar. Hún segist jafnframt hafa orðið fyrir fósturláti vegna árásarinnar. Staðfest er að hún missti fóstur um þetta leyti. Samkvæmt dómsniðurstöðu bera gögn hins vegar ekki með sér að fósturlátið megi rekja til árásarinnar. Gögn og myndir bráðamóttöku LSH vegna líkamsskoðunar leiða í ljós marga yfirborðsáverka á hálsi, tognun og ofreynslu á hálshrygg, yfirborðsáverka á bakvegg og brjóstkassa, og loks tognun og ofreynslu á brjósthrygg.“

Var Ólafur eins og áður segir dæmdur vegna málsins. Í bókinni lýsir Kolbrún atburðarrásinni á allt annan hátt og sagði barnsmóður Ólafs hafa tryllst og ráðist á hann með höggum og spörkum. Þá segir Kolbrún að hún hafi einnig orðið fyrir ofbeldi af hálfu fyrrverandi barnsmóður hennar. Kolbrún vill einnig meina að Ólafur hafi lagt barnsmóður sína í gólfið en Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg.

Kolbrún heldur fram að barnsmóðirin hafi hlotið áverkana eftir að hún hafi yfirgefið húsið. Á þessu er ljóst að mikið ber á milli frásagnanna Kolbrúnar og barnsmóðurinnar. Kolbrún sendi síðan frá sér eins og áður segir bók um sína upplifun. Til stóð að viðtal við hana yrði sýnt í Íslandi í dag í kvöld. Á Facebook-síðu Stöðvar 2 var viðtalið auglýst en á síðunni sagði:

„Í kvöld heyrum við átakanlega frásögn Kolbrúnar Önnu Jónsdóttur af atburðum sem áttu sér stað á heimili hennar um mitt sumar 2016. Kolbrún lýsir þar þeirri upplifun að hafa verið ákærð í máli þar sem hún hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Ekki missa af Íslandi í dag.“

Í kjölfarið birti hreyfingin Líf án ofbeldis yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni og fordæmdi viðtalið við Kolbrúnu. Í yfirlýsingunni sagði:

„Maður er dæmdur fyrir líkams­á­rás og brot gegn barna­verndar­lögum fyrir að ráðast á barns­móður sína fyrir framan barn þeirra. Eigin­kona gefur út bók og hljóð­bók sem opin er öllum þar sem hún segir meðal annars barnið ljúga til um at­vik. Fjöldi fólks styður fólkið opin­ber­lega.“

Þá var einnig gagnrýnt að um­fjöllunin væri sýnd á sama stíma og málinu er enn ó­lokið hjá dóm­stólum og þá sér­stak­lega þar sem barn á hlut í málinu. Að sögn Kol­brúnar bjó barnið til „nýja at­burða­rás“ og sagði föður sinn, Ólaf, vera vondan mann en hún ýjar að því að barnið hafi verið fengið til þess að segja á­kveðna hluti gegn föður sínum. Þá sagði einnig í yfirlýsingunni:

„Síðan hve­nær fá eigin­konur dæmdra of­beldis­manna plat­form á besta tíma í sjón­varpi allra lands­manna til þess að lýsa yfir sak­leysi þeirra? Mega eigin­konur dæmdra nauðgara þá kannski gera ráð fyrir að fá slíkt pláss líka,“ segir enn fremur.

„Við for­dæmum Stöð 2 fyrir að taka þátt í að gefa þessu fólki endur­tekið rými í fjöl­miðlum til þess að beita barn og konu sam­fé­lags­legu of­beldi.“

Seinnipartinn í dag var færslan síðan fjarlægð af Facebook og ákveðið að taka þáttinn af dagskrá. Í svari Stöðvar 2 sagði:

„Ísland í dag þátturinn sem auglýstur á Facebook Stöð 2 fyrr í dag mun ekki vera á dagskrá í kvöld. Málið er ennþá í vinnslu hjá dagskrárdeild  sjónvarps.“

Þá óskaði Hringbraut eftir svörum frá Frosta Logasyni, stjórnanda þáttarins. Hann segir:

„Í dag var tekin sú ákvörðun að fresta sýningu þessari umfjöllun. Við höfum rætt við báða málsaðila og stefnum að því að fjalla um þetta mál síðar í vikunni og þá munu báðir málsaðilar eiga þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.“