Við­reisn úti­lokar Sjálf­stæðis­flokkinn: „Við viljum því láta á þetta banda­lag reyna“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í Reykjavík segir í færslu á Facebook að bandalag flokksins með Pírötum og Samfylkingunni sé öflugt og að nú sé kominn tími á að hefja formlegar meirihlutaviðræður með Framsóknarflokknum.

Fréttablaðið greindi frá þessu.

„Eftir kosningar hefur eðlilega verið mikill áhugi á því hver verður við stjórnvölinn í Ráðhúsinu næstu fjögur árin. Eins og þekkt er fórum við í Viðreisn í bandalag með Pírötum og Samfylkingu fljótlega eftir kosningar, hvað varðar meirihlutaviðræður. Í því bandalagi erum við af heilum hug. Það er alveg skýrt og við leitum ekki annað,“ segir Þórdís á Facebook.

Hún segir að bandalagið með Pírötum og Samfylkingunni vera augljós kostur þegar skoðaðar eru málefnaáherslur Viðreisnar í kosningabaráttunni. „Sérstaklega hvað varðar skipulags-, samgöngu- og loftslagsmál. Þetta verða helstu og mikilvægustu viðfangsefni næstu fjögurra ára og mikilvægt að vanda þar til verka,“ segir Þórdís.

Næsta skref er að hefja meirihlutaviðræður með Framsókn að sögn Þórdísar. „Við viljum því láta á þetta bandalag reyna með því að hefja formlegar meirihlutaviðræður með Framsóknarflokknum, sem setti Samgöngusáttmála og uppbyggingu íbúða einnig á oddinn. Með þessum fjórum flokkum næðist starfhæfur og öflugur meirihluti að okkar mati.“

Fleiri fréttir