Við minnumst hans með hlýhug

Við vorum fjórir í bílnum, ég, bræðurnir Jón og Þorsteinn og Hjalti faðir þeirra.  „Stoppum hér“ sagði Jón, „ég þarf að skoða mig aðeins um.“  Við fylgdum Jóni út úr bílnum og gengum  niður að gljúfurbrúninni.  Allir horfðum við niður á ánna sem að rann niður í gljúfrinu.  „Það er ekki þessi“ tilkynnti Jón, „það er hin.“

Við vorum staddir í Skagafirði, árið var 1996.  Tilgangurinn var að róa á kajökum niður aðrahvora jökulsánna.  Vestari jökulsáin var sú ranga en sú austari hin rétta að mati Jóns.  Við héldum því ferðinni áfram og settum stefnuna á Jökulsá austari.  Þegar þangað kom blasti við okkur það svakalegasta gljúfur sem að við höfðum augum litið.  Handan við gljúfrið dálítið norðan við brúnna yfir gljúfrið var bærinn Merkigil, en nokkru sunnar var ekkert gljúfur og þar dreifði áin úr sér yfir mela.  Veturinn áður hafði verið mjög snjóþungur og greinilegt var að mikið vatn var í ánni.

Við bárum kajakana niður að ánni og gerðum okkur klára að fara í kajakfötin.  Ég og bræðurnir ætluðum að róa niður ánna en faðir þeirra bræðra ætlaði að fara á bílnum á einhvern hentugan stað þar sem við gætum komist í land eftir að gljúfrinu sleppti.  Enginn okkar sagði neitt, allir litum við aftur og aftur í átt að gljúfurkjaftinum þar sem að áin steyptist inn í gljúfrið.  Við vissum að það yrði ekki aftur snúið eftir að þangað inn væri komið.  Hver á fætur öðrum hurfum við bakvið hólana ofan við ánna, tilhugsunin við komandi átök við vatnið kallaði fram þörf á að létta á sér.

Út í ánna fórum við, straumurinn var ekki mikill þarna á melunum, við gerðum nokkrar léttar æfingar sem af einhverjum ástæðum drógust nokkuð á langinn.  Við hættum ekki að horfa reglulega niður eftir ánni í átt að gljúfrinu.  „Drífum okkur,“ sagði Þorsteinn og gerði sig líklegan til að leggja í hann.  Kjarkurinn hjá mér var að gefa sig, ég var þeirra lakastur á kajak, „ég fer ekki,“ sagði ég og leit bænaraugum á Jón.  „Svona vertu ekki aumingi, þú ferð létt með þetta, komum okkar af stað“, rödd Þorsteins lýst talsverðum pirringi.  Ég starði á Jón í von um stuðning, mér fannst hann ekki sannfærður, það var eins og einhver efi væri að brjótast um í honum.  En hann þagði og réri af stað, Þorsteinn var yngri og erfitt var að standast hvatningarorð litla bróður.

Ég safnaði saman þeim litlu leifum sem ég átti eftir af kjarki og réri á eftir þeim.  Gljúfrið nálgaðist og hraðinn á ánni jókst hratt eftir þvi sem farvegur hennar þrengdist og nóg var af vatninu.  Fyrr en varði vorum við komnir inn í gljúfrið og strax tóku við mun stærri flúðir en við höfðum nokkru sinni tekist á við.  Eftir hverja þeirra sögðum við „þetta getur sko ekki orðið meira en þetta“,  Þorsteinn uppveðraður, Jón með varkárni en ég skjálfandi rómi. 

Á milli flúðanna komu stuttir rólegir kaflar og þá gat maður virt gljúfrið fyrir sér.  Það var ægifagurt.  Sennilega um 80 metra djúpt, víðast hvar nánast þverhnípt.  Hér og þar voru klettasillur grasi vaxnar og á mörgum þeirra var trjágróður búinn að festa rætur.  Sólargeislar stungu sér niður í gljúfrið og bjuggu til ótrúleg listaverk með birtu sinni og skuggum sem að henni fylgdu. 

Alltaf urðu flúðirnar skuggalegri og ég var hættur að geta tekið undir lýsingar þeirra bræðra á hverri flúð.  Ég var nokkrum sinnum búinn að fara á hvolf en hafði alltaf tekist að snúa mér við.  Bangsalegt vaxtarlag mitt hafði í gegnum tíðina oft gert mér þessa snúninga erfiða.  Eftir hvern snúning þakkaði ég öllum helgum vættum fyrir að vera á lífi.  Þorsteinn var í essinu sýnu, hann var mjög snjall ræðari og þarna fannst honum loksins vera verkefni við hans getu.  Mér fannst  hálfgert mikilmennskuæði vera runnið á hann.  Jón var líka snjall ræðari, ekki eins snjall og ltili bróðir og mun rólegri.   Hann horfði oft rannsakandi niður með ánni og það var eins og hann væri að velta einhverju fyrir sér sem að hann deildi ekki með okkur.

Við rérum eftir óvenju lygnum kafla, Jón var fyrstur ég á eftir honum og Þorsteinn síðastur.  Jón var um 30 metrum á undan mér.  Allt í einu hvarf hann, ég reyndi að skyggnast eftir honum en sá ekkert.  Svo birtist hann miklu neðar í ánni, greinilega í talsverðu uppnámi  og gaf mér merki um að róa mjög hratt.  Ég horfði hann skilningsvana, leit síðan niður fyrir mig og hjarta mitt stöðvaðist.  Fremri hluti kajaksins míns var komin fram af brún á einhverju sem ég hafði aldrei horft á frá þessu sjónarhorni áður.  Áin var talsvert fyrir neðan mig, ég veit ekki hversu mikið en kajakinn var fjórir metrar á lengd og þetta var hærra en það.  Þetta var sem sagt það sem í daglegu tali er kallað foss og ég var að fara fram af þessu fyrirbæri.  Ég horfði á áttina að Jóni neðar í ánni og svipurinn á honum lýsti einskærri angist, það var ekki uppörvandi.  Ég hvarf niður í iðuna, hentist þar eitthvað til, réði ekki neitt við neitt en allt í einu skaut mér upp á réttum kili og mig rak í burtu frá fossinum.  Þorsteinn kom á eftir og rak upp mikið gleðiöskur þegar hann steyptist fram af, hann var orðinn sturlaður, það var alveg ljóst. 

Jón tók mér fagnandi, greinilega feginn að hafa ekki þurft að fara í einhverjar björgunaraðgerðir, Þorsteinn réri hins vegar áfram niður ánna og var í eihverri annarri veröld en við Jón.  Við Jón biðum aðeins, hann talsvert skelkaður en ég miklu meira en það.  Við rérum áfram, tvær flúðir voru framundan með stuttu millibili og síðan var beygja á ánni.  Við sáum Þorstein hverfa fyrir beygjuna, þegar ég fór ofan í fyrri flúðina fann ég að kjarkurinn var allur farinn og á hvolf fór ég.  Ég reyndi ekki einu sinni að snúa, fór bara úr bátnum án þess að hugsa nokkuð.  Þegar mér skaut upp stefndi ég hraðbyri niður í seinni flúðina og hún var stærri.  Ég reyndi að synda á móti straumnum, en það virkar ekki, sú myndlíking er bara bull og vitleysa.  Allt í einu stöðvaðist ég.  Svuntan sem maður hefur um sig miðjan til að festa sig við kajakinn var búin að festast við eitthvað í ánni.  Og nú þrýsti straumurinn á mig með öllum sínum gríðarlega krafti og svuntan hélt á móti.  Ég var bókstaflega kominn í teygjubyssu.    Byssan hleypti af, svuntan slitnaði og skaut mér af ógnarkrafti niður í flúðina.

Ég hef lesið margar kennslubækur um róður í straumvatni og hvernig maður á bregðast við.  Þar segir að þegar maður lendi niður í flúð þá hverfist vatnið til baka líkt og í þeytuvindu.  Þetta er kallað græna herbergið.  Til að komast út úr því á maður að synda í átt að botninum vegna þess að þar er vatn sem rennur áfram undir þeytuvindunni.  Þeir sem skrifa þessar ráðleggingar hafa aldrei lent í þessu, ekki séns.  Þegar maður snýst á ógnarhraða í þeytuvindunni þá veit maður aldrei hvað snýr upp og niður.  Ég hafði nægan tíma til að íhuga þessi skrif meðan ég dvaldi þarna í þeytuvindunni.  Og það er ekkert grænt þarna, það er svart.  Þrýstingurinn var óskaplegur, mér fannst hausinn vera að springa af mér, ég reyndi að slíta hjálminn af mér en festingarnar á honum stóðust allar gæðakröfur.  Ég var að örmagnast, byrjaður að drekka jökulvatnið og fann að meðvitundin var að fjara út.

Þá skaut mér upp.  Ég svamlaði upp að klettavegnum og klöngraðist þar upp á klettanös sem stóð út í ánna.  Fyrst ældi ég óstjórnlega, síðan tók við ofboðslega gleði.  Ég lagðist niður og hló eins og vitleysingur.  Þegar ég leit upp horfði ég framan í Jón sem var þungur á svip.  Kajakinn minn var horfinn eitthvað niður ánna eða niður í ánna, það breytti engu, ég var án hans.  Fyrir ofan mig var 80 metra hár klettaveggurinn, þverhníptur.  Handan við ánna var skriða sem lá upp á milli klettanna, það var ekki erfitt að skríða upp hana.  En til þess þurfti ég fyrst að komast yfir ánna.    Ég er lofthræddur, mjög lofthræddur, ég finn fyrir lömunarkennd í hnjánum þegar ég er hátt uppi.  Ég dreg fyrir glugga í flugvélum til að þurfa ekki að horfa út.  Ég fer ekki í rennibrautir í sundlaugum vegna þess að miðja vegu í stigunum gefa hnén sig og ég gríp um súluna. Nú voru kostirnir þessir, klifra eða synda.

Að synda var ekki valmöguleiki á þessum tímapunkti, enginn mannlegur máttur hefði fengið mig út í ánna aftur.  Ég lét Jón hafa hjálminn og björgunarvestið til að létta á mér, hugsaði sem svo að ef ég myndi hrapa niður í ánna þá myndi hvorutveggja bara draga dauðastríð mitt á langinn.  Og svo hófst klifrið.  Að vera 178 sentimetrar og 110 kílógröm eru ekki eiginleikar sem koma manni að gagni við klettaklifur.  Ég reyndi að gera þetta faglega,  gróf fingrunum inn í sprungur og misfellur og þannig fikraðist ég upp bergstálið.  Þegar ég var nýlagður af stað þá leit ég í eina skiptið niður.  Ég sá að Jón hafði fært sig upp að klettaveggnum hinum megin við ánna, það var ekki mjög hvetjandi.  Eftir þetta leit ég aldrei niður, eða öllu heldur ég leit bara ekki neitt, lokaði augunum, klessti andlitið upp að klettaveggnum og klifraði blindandi. 

Ég vildi að ég gæti sagt að ég hefði náð tökum á klifrinum og gert það svona og hinsegin.  Það var ekki þannig, angistin var algjör.  Ég er nokkuð viss um að einhvers staðar á leiðinni missti ég þvag, hefði örugglega misst hinum megin líka ef ég hefði ekki losað það í hólana  við upphaf ferðar.  Eftir því sem ofar dró fór ég að finna fyrir stöku trjágreinum sem ég gat gripið í síðan gras og ég fann að þverhnípið minnkaði.  Allt í einu rak ég í höfuðið í eitthvað hart, mér dauðbrá og hélt dauðahaldi í grassvörðinn sem ég hékk í, vogaði mér að opna augun og starði þá á girðingarstaur, ég var kominn inn á tún.

 Eftir að hafa legið góða stundu og ýmist hlegið eða kjökrað af gleði yfir að vera á lífi þá stóð ég á fætur.  Ekki var langur gangur heim að Merkigili, þangað stefndi ég.  Ég bankaði á dyrnar, hurðin var ekki opnuð, hún var rifin upp.  Í gættinni stóð tröll, ég hefði takið til fótanna og flúið, skítt með öll júdóbrögð, ef að tröllið hefði ekki brosað út að eyrum, þrifið í mig og kippt mér inn fyrir. „Hér nöldrar enginn út af umgengni“ sagði hann þegar hann leiddi mig inn í eldhús og ég reyndi að stynja því upp að ég væri rennandi blautur.  Hann setti mig niður á eldhússtól og í kringum mig myndaðist strax pollur, einhver blanda af skagfirsku jökulvatni og eyfirsku hlandi.

Tröllið skellti sneið af jólaköku og kaffibolla á borðið fyrir framan mig, „nærðu þig félagi“ sagði tröllið.  Ég drekk ekki kaffi en það hvarflaði ekki að mér að nefna það, ég át og drakk.  Tröllið teygði sig í útvarpið og hækkaði hressilega í því, „músik, félagi, músik, maður verður að hafa músik“.  Svo horfði hann rannsakandi á mig, samt ennþá með þetta gríðarlega stóra bros.  Þegar ég vogaði mér að horfa til baka gat ég skoðað betur þetta tröll.  Þetta var óvenju hraustulegur maður, ekki það að vöðvarnir hafi verið svo áberandi, það bara geislaði af manninum hraustleiki.  Hávaxinn, stórbeinóttur með mikið svart hár sem stóð beint upp í loftið.  Ekki smáfríður eða myndarlegur á neinn hátt samkvæmt hefðbundnum viðmiðum en samt þannig að maður var heillaður af stórbrotnu útlitinu. 

Hann sagðist heita Helgi og hann byggi einn þarna á Merkigili.  Sagðist hafa komið þarna fyrst sem vinnumaður og síðan tekið við búinu.  Hann sagðist hvergi annars staðar í veröldinni vilja vera, þarna væri hann kóngur í ríki sínu.  Því trúði ég vel.  Stórbrotið landslagið þarna þurfti einmitt kóng eins og hann, mér fannt þetta alveg smellpassa.  Hann spjallaði um margt og var hinn skemmtilegasti, aldrei nefndi hann einu orði hvað ég væri að þvælast þarna.

Eftir nokkra stund var bankað á dyrnar, Helga þaut til dyra og kom til baka með félaga mína undir sitthvorri hendinni, báðir voru þeir dolfallnir á svipinn.  Hann setti þá niður á bekk við elhúsborðið, skenkti þeim kaffi og jólaköku og fagnaði komu þeirra, „því fleiri þeim mun meira stuð“ sagði hann og hló.  Í ævintýrum hefði það verið orðað þannig að hann hafi hlegið þannig að undir tók í fjöllunum og það var eiginlega þannig.  Eldhúsgólfið var nú allt á floti, þökk sé okkur félögum.

Helgi spurði okkur hvaða flandur væri á okkur.  Við sögðum honum sögu okkar, félagar mínur höfðu komist upp úr ánni nokkuð neðar en ég fór upp, þeir höfðu fundið þar þokkalega færa leið sem hægt var að fara en halda samt í sér helstu líkamsvessum.  „Fóruð þið í Jökulsá austari, hún er ófær, það hefur enginn siglt hana.  Það kom hérna Norðmaður um daginn, með kvikmyndalið, þyrlu og allar græjur og hann lagði ekki í hana,“ sagði Helgi og hélt áfram:

Þið hefðuð átt að tala við strákana á Króknum, þeir eru búnir að vera að sigla í Jökulsá vestari í talsverðan tíma og eru margbúnir að skoða austari ánna og segja hana ófæra, sérstaklega í svona miklum leysingum eins og núna. 

Við Þorsteinn litum nú báðir á Jón.  Jón hafði einmitt talað við strákana á Króknum til að fá ráðleggingar.  Jón horfði niður fyrir sig, sagði ekki orð.  „Jón“, sögðum við Þorsteinn einum rómi.  Jón leit upp og var í besta lagi flóttalegur.  „Tja sko, jú, ég talaði við þá og þeir sögðu að við ættum að fara í vestari ánna, sögðu reyndar að við mættum alls ekki fara í austari ánna.“  Svo herti hann sig upp og bætti við:

En þið vitið nú hvers konar rolur þessir Sauðkræklingar eru.  Svo þegar ég skoðaði vestari ánna í morgun þá fannst mér hún ekki vera merkileg.

Helgi hló af okkur, veit ekki hvort það var vegna þess að honum fannst við skemmtilegir eða vitlausir.  En það var ekki erfitt að hlæja með honum.  Hann dreif okkur nú út og niður að gljúfrinu.  Hann vildi athuga hvort ekki mætti bjarga bátnum mínum.  Þegar við komum að gilbarminum komum við að stað þar sem að klettadrangi stóð út frá berginu, toppurinn á honum rúmaði svona eins og eitt skópar.  Frá brúninni að þessum dranga var rúmur metri.  „Hér taka útlendingarnir alltaf af mér myndir“ sagði Helgi og stökk út á drangann.  Þar stóð hann og breiddi út risastóran faðminn og brosti þannig að sást um allan Skagafjörð.  Ég sá alveg útlendingana fyrir mér mynda þetta tröll standandi á smánibbu með þverhnípið á alla kanta, þvílíkt myndefni.  En þessi athöfn hafði þau áhrif á mig að ég lagðist á magann, fæturnir gáfu sig.

Niðri á eyri við ánna sáum við glitta í árina mína, bátinn sáum við ekki.  „Ég sæki árina“ sagði Helgi og svo hvarf tröllið fram að þverhnípinu.  Eftir stutta stund sáum við hann á eyrinni hjá árinni.  Eftir ekki mikið lengri stund var hann kominn aftur.  Við vorum orðlausir.  „Ég er vanur að sækja skjátur sem að villast niður í gljúfrið og komast ekki upp, það eru grösugar sillur þarna sem að freista þeirra.“  „Ekki rekur þú þær upp úr gljúfrinu?“ spurði ég Helga.  „Nei, nei, ég held á þeim“, svaraði hann. 

Hjalti faðir félaga minna kom nú að sækja mig.  Þorsteinn og Jón fóru aftur niður í gljúfrið og kláruðu róðurinn.  Helgi hafði varað þá við að það væri verulega hættulegur staður eftir á leið þeirra, það væru þrjár mjög stórar flúðir í röð, það væri hægt að ganga framhjá þeim og þeir skildu gera það, þegar þeir væru komnir framhjá þessum stað væru mestu erfiðleikarnir að baki.  Þeir félagar fóru að ráðum Helga.  Þeir fullyrða enn þann dag í dag að við hefðum allir farist í þessum flúðum ef að Helgi hefði ekki haft tækifæri til að vara okkur við.

Helgi lést í janúar árið eftir, hann hrapaði niður í gljúfrið er hann var á ferð milli bæja og lenti á klaka.  Við minnumst hans með miklum hlýhug.  Klaufaskapur minn gerði það að verkum að við hittum Helga áður en við fórum okkur að voða.  Án hans værum við ekki til frásagnar, það er hægt að þakka fyrir minna.