Verslunareigendur segja nóg komið: „Grunar að tilgangurinn hafi beinlínis verið að ergja fólk“

„Einhverra hluta vegna hafa borgaryfirvöld undanfarinn áratug kosið að fara með ófriði gegn rekstraraðilum við Laugaveg og neðanverðan Skólavörðustíg. Herferðin gegn atvinnustarfseminni í miðbænum hefur náð nýjum hæðum með fyrirhuguðum allsherjarlokunum gatna, þvert á vilja okkar rekstraraðila og þvert á vilja meirihluta höfuðborgarbúa eins og nýleg könnun Maskínu leiddi í ljós.“

Svona hefst aðsend grein í Morgunblaðinu í dag eftir tólf konur sem allar eiga það sameiginlegt að stunda atvinnurekstur í og við miðbæ Reykjavíkur.

Fortíðarskvaldur og klappstýrur afturhaldsins

Í greininni er fjallað um þá stefnu meirihlutans í borginni að minnka umferð vélknúinna ökutækja í miðborginni. Segja greinarhöfundar að fulltrúar meirihlutans hafi talað niður til rekstraraðila í miðbænum. Steininn hafi tekið úr þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, notaði „fúkyrði“ gegn þeim í grein í Fréttablaðinuþann 12. maí síðastliðinn.

„Við höfum það eitt til „saka unnið“ í hennar huga að berjast fyrir lífi fyrirtækja okkar og verja þar með störf og mannlíf í miðbænum. Þetta kallar Dóra Björt „fortíðarskvaldur“ og segir okkur klappstýrur afturhaldsins með „sveittar krumlur fortíðar“! Dóra Björt, ásamt borgarstjóra og fleiri borgarfulltrúum, hefur kosið að standa í stríði við okkur fyrir það eitt að við höfum barist gegn lokunum gatna í miðbænum.“

Konurnar segja að umræddar lokanir hafi stórskaðað rekstur þeirra undanfarin ár og hrakið mörg fyrirtæki úr götunum. Þar á meðal séu fyrirtæki sem eiga sér langa sögu og hafa lifað farsóttir, kreppur, hrun og jafnvel heimsstyrjöld.

„Við hefðum seint trúað því að skæðasti andstæðingur okkar yrði meirihluti borgarstjórnar (meirihluti borgarstjórnar sem situr í skjóli minnihluta atkvæða). Fyrirhugaðar eru umfangsmiklar heilsárslokanir gatna gegn vilja afgerandi meirihluta rekstraraðila og gegn vilja meirihluta höfuðborgarbúa. Miðað við þær neikvæðu afleiðingar sem tímabundnar lokanir hafa valdið er fyrirsjáanlegt að viðskiptaflóttinn mun stóraukast.“

Óskiljanleg ákvörðun

Það eru ekki bara götulokanir sem hafa fælt viðskiptavini frá, að mati kvennanna, því erfitt aðgengi, fækkun bílastæða og hækkun bílastæðagjalda og sekta hafi haft sín áhrif. Þá hafi breyting á akstursstefnu hluta Laugavegar einnig valdið viðskiptavinum vandræðum og jafnvel reiði.

„Sú ákvörðun er raunar svo óskiljanleg að sá grunur vaknar að tilgangurinn hafi beinlínis verið að ergja fólk og letja það til að versla í miðbænum.“

Í grein sinni senda konurnar skýr skilaboð og biðja borgaryfirvöld að halda að sér höndum. „Látið Laugaveg og Skólavörðustíg í friði og hlustið á vilja afgerandi meirihluta rekstraraðila.“

Undir greinina skrifa eftirfarandi konur:

Sólveig Grétarsdóttir, Herrafataverslun Guðsteins, Laugavegi 34

Anne Helen Lindsay, Litla Jólabúðin og Litla Gjafavörubúðin, Laugavegi 8

Helga Jónsdóttir, Gullkúnst Helgu, Laugavegi 13

Kristjana J. Ólafsdóttir, Gull og silfur, Laugavegi 52

Inga S. Jónsdóttir, Gleraugnasalan, Laugavegi 65

Anna Bára Ólafsdóttir, Dún og fiður Laugavegi 86-94

Hrafnhildur Egilsdóttir, Vitinn, Laugavegi 62

Kristín Ellý Egilsdóttir, Kós Leður, Laugavegi 94

Hildur Bolladóttir, Ófeigur Gullsmiðja, Skólavörðustíg 5

Anna María Sveinbjörnsdóttir, Anna María Design, Skólavörðustíg 3

María Jóh. Sigurðardóttir, Rossopomodoro, Laugavegi 40 a

Guðrún Hallgrímsdóttir, Íslandsapótek, Laugavegi 46