Verkalýðsforystan í áfalli eftir sigur Sólveigar Önnu

Endurkoma Sólveigar Önnu Jónsdóttur í formannsstól Eflingar getur átt eftir að hafa meiri áhrif en fólk gerir sér grein fyrir í fljótu bragði. Hún hrökklaðist frá völdum í þessu stóra verkalýðsfélagi á síðasta ári eftir vandræðaleg átök við samstarfsfólk á skrifstofu Eflingar. Hálfu ári síðar snýr hún til baka eins og ekkert hafi í skorist og vinnur sigur í harðri formannskosningu hjá félaginu þar sem þrír sóttust eftir stöðu formanns.

Þótt kosningaþátttaka sé mjög dræm breytir það engu um þá staðreynd að Sólveig Anna er orðinn formaður Eflingar og mun nú láta til sín taka með hætti sem ekki hefur sést áður hér á landi. Á kjörskrá voru 26.000 félagar en einungis 15 prósent nýttu atkvæðisrétt sinn. Sólveig Anna náði 52 prósentum atkvæða sem þýðir að 8 prósent félaga Eflingar greiddi henni atkvæði sitt.

Þetta er afar lágt hlutfall sem er sannarlega ekkert einsdæmi í verkalýðsfélögum og hefur ekki haft nein áhrif á þá sem náð hafa völdum í kosningum þar sem mikill fjöldi átti rétt sem fáir nýttu. Þetta mun engin áhrif hafa á Sólveigu Önnu þegar hún reiðir til höggs, sem verður afgerandi og væntanlega innan skamms.

Einhverjir hafa reynt að gera lítið úr sigri Sólveigar Önnu. Þannig heldur Innherji á Vísi því fram að hún komi „löskuð“út úr kosningunum og reynir að rökstyðja það með heldur ótrúverðugum hætti. Hafa verður í huga að Innherji flytur yfirleitt öfgakenndar skoðanir þeirra sem eru Miðflokksmegin í Sjálfstæðisflokknum og því óhætt að taka þeim af varúð.

Fyrir formannskjörið tilkynnti Sólveig Anna með afgerandi hætti að hún vildi draga Eflingu út úr Starfsgreinasambandinu og jafnvel einnig út úr ASÍ. Þetta yrðu mikil tíðindi og myndi algerlega kippa fótunum undan núverandi skipan verkalýðsforystunnar á almennum vinnumarkaði hér á landi.

Vert er að gera sér ljóst að Efling telur um fjórðung allra félaga í ASÍ og er alger burðarás í Starfsgreinasambandinu sem yrði ekki svipur hjá sjón eftir útgöngu Eflingar. Þá er einnig benda á að að Efling situr á sjóðum sem samtals nema um tuttugu milljörðum króna og gefa formanni og forystu félagsins slagkraft og svigrúm til að framkvæma ýmsar sínar villtustu hugmyndir.

Öllum má ljóst vera að Sólveig Anna er verkalýðsleiðtogi sem vill helst ekki vinna með viðsemjendum, atvinnurekendum, telur þá nánast óvini og ótvíræða andstæðinga. Hún hefur róttækar og oft óraunhæfar hugmyndir um lífeyrissjóðakerfi Íslendinga sem hefur verið byggt upp með farsælum hætti í meira en hálfa öld. Hún hefur horn í síðu forystu ASÍ og virðist ekki vera tilbúin að lúta forystu núverandi forseta, sem því miður er veikur forystumaður og ráðvilltur, andstætt því sem stundum hefur verið hjá ASÍ. Sterkasti og virtasti ASÍ-forseti sögunnar er líkast til Ásmundur Stefánsson sem gegndi lykilhlutverki árið 1990 þegar svokallaðri þjóðarsátt var komið á. Nú er öldin önnur.

Fyrir hefur legið að árið 2022 yrði gríðarlega erfitt á vinnumarkaði og margar hindranir á leið til nýrra kjarasamninga. Ekki hjálpar ríkisstjórnin til með því að láta eins og vaxandi verðbólga komi henni ekkert við. Fyrir þessa afstöðu verður ríkisstjórninni refsað innan fárra mánuða. Þá er galin vaxtahækkun Seðlabanka Íslands eins og olía á eld á sama tíma og flestar þjóðir Evrópu velja að halda vöxtum óbreyttum út árið 2022.

Endurtekin valdataka Sólveigar Önnu Jónsdóttur í Eflingu gerir stöðuna enn snúnari en fyrr. Sólveig Anna mun ekki hika við að stefna öllu í verkföll þegar líður á árið. Hún vill átök. Því hefur hún lýst yfir og er líkleg til að standa við stóru orðin.

- Ólafur Arnarson