Verður Guðrún svikin um ráðherraembættið?

Lítil frétt í Fréttablaðinu í dag vekur upp áleitnar spurningar. Þar segir Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður að hún muni taka við embætti dómsmálaráðherra innan nokkurra mánuða. „Hvort það verður um áramótin eða á útmánuðum er í höndum formanns flokksins,“ segir Guðrún í viðtali við blaðið.

Eftir því sem næst verður komist er málið ekki alveg svona einfalt. Í fyrsta lagi var sagt við stjórnarmyndun í lok nóvember í fyrra að Guðrún tæki við ráðherraembætti eftir 15 mánuði sem væri þá í byrjun mars á næsta ári en ekki um áramót. Þá er vitað að mikil óánægja gaus upp í Suðurkjördæmi við stjórnarmyndunina þegar Guðrún fékk ekki sæti í ríkisstjórninni, en hún leiðir lista flokksins í kjördæminu og náði kjöri sem fyrsti þingmaður Suðurlands. Þótti það vel af sér vikið í ljósi þess að hún þurfti að hafa Sigurð Inga Jóhannsson undir í baráttunni um fyrsta sætið. Framsóknarmenn náðu hins vegar fyrsta þingmanni hinna landsbyggðarkjördæmanna af Sjálfstæðisflokknum, í Norðvestur og Norðaustur kjördæmunum. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem leiddi listann í Norðvestur, missti það sæti til Framsóknar. Það þóttu nokkur tíðindi og veikt hjá Þórdísi Kolbrúnu.

Það sem gerir þetta mál verulega flókið er að Jón Gunnarsson er alls ekki tilbúinn að víkja úr ráðherrastóli fyrir Guðrúnu. Hann hefur verið sá ráðherra flokksins sem hefur verið afkastamestur og látið til sín taka á ýmsum sviðum. Jón er umdeildur – eins og reyndar flestir þeir sem þora og láta til sín taka. Miðað við allt sem hann hefur gert og er með í vinnslu innan ráðuneytisins er mjög ólíklegt að Bjarni Benediktsson treysti sér til að ýta honum út úr ríkisstjórninni í mars á næsta ári.

Hvað er þá til ráða? Víst er að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi mun ekki taka því þegjandi að loforð um ráðherra næsta vor verði svikið. Suðurkjördæmi er sterkasta vígi flokksins en hefur ekki haft ráðherra síðan árið 2016. Páll Magnússon, sem leiddi lista flokksins í fimm ár, var sniðgenginn vegna ósættis við Bjarna Benediktsson. Guðrúnu Hafsteinsdóttur var beinlínis lofað ráðherradómi ef hún gæfi kost á sér í fyrsta sæti flokksins, en forysta flokksins var þá staðráðin í að losna við Pál Magnússon. Það gekk eftir. Hann sá í hvað stefndi og gaf ekki kost á sér. Guðrún var mjög hikandi en lét til leiðast og fór í baráttuna þegar forysta flokksins hafði sannfært hana um að hennar biði ráðherradómur, með öllu sem því fylgir sem eru völd, bíll og bílstjóri og ráðherrastarfskjör sem eru mun betri en óbreyttir og valdalausir þingmenn fá.

Hvað á þá að gera við Jón Gunnarsson ef loforðið gagnvart Guðrúnu verður efnt? Það er ekki alveg einfalt og alls ekki auðvelt að ýta honum út úr ríkisstjórninni. Segja má að kostirnir séu fjórir:

1. Að tími Jóns Gunnarssonar verði framlengdur fram á haustið 2023 en því er spáð að Bjarni Benediktsson hætti þá í stjórnmálum. Við það myndi losna ein ráðherrastaða á vegum flokksins. Þá gæti Guðrún komið inn og tekið við einhverju ráðuneyti eftir tilfærslur í ráðherraliði flokksins.

2. Að Jón sitji áfram í sínu embætti en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir víki úr stjórninni. Það væri reyndar alveg rökrétt. Hún er iðnaðarráðherra og einnig með málefni háskólanna á sinni könnu. Áslaug hefur enga reynslu af þeim málaflokkum og segja má að það sé varla boðlegt að fela henni þetta ráðuneyti.

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur starfað í iðnaði í aldarfjórðung sem stjórnandi og einn eigenda Kjöríss í Hveragerði. Þá var hún formaður Samtaka iðnaðarins í sex ár og hefur setið þar í stjórn samtals í áratug. Þá sat hún í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, var formaður í lífeyrissjóði og einnig formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Ennfremur hefur hún reynslu af rekstri háskóla, en hún átti sæti í háskólaráði HR um árabil. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á öðru en að nýta reynslu Guðrúnar í forystu atvinnulífsins með því að fá henni atvinnuráðuneyti í stað reynslulausrar Áslaugar Örnu. Guðrún hefur hins vegar engan bakgrunn til að takast á við dómsmálin. Hún á að verða iðnaðarráðherra. Allt annað er kjánalegt.

3. Að Jóni Gunnarssyni verði fórnað og hann dreginn út úr ríkisstjórninni gegn háværum mótmælum hans og stuðningsmanna.

4. Að Guðrún Hafsteinsdóttir verði svikin um ráðherraembætti. Það er alls ekki útilokað. Bjarni Benediktsson hefur nú svikið annað eins á sínum tuttugu ára stjórnmálaferli. Og alltaf komist upp með það!

- Ólafur Arnarson.