Verður einnig ráðist gegn Ármanni?

Heyrst hefur að mikillar óánægju gæti meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi með forystu Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra. Flokksmenn í bænum hafa alls ekki staðið einhuga á bak við hann á þessu kjörtímabili.

Ólíklegt er að meirihlutasamstarfið með Framsókn haldi áfram þar sem Birkir Jón Jónsson framsóknarmaður, sem myndaði meirihluta með Ármanni, gefur ekki kost á sér áfram. Framsókn leitar nú að nýrri forystu, og horfir í þeim efnum helst til Breiðabliks.

Sjálfstæðismenn eru sumir hverjir með hugmyndir um nýjan leiðtoga fyrir flokkinn sem yrði boðinn fram gegn Ármanni í prófkjöri. Tveir eru einkum nefndir til sögunnar. Annar þeirra er Sveinn Gíslason formaður Breiðabliks, en íþróttafélagið nýtur mikilla vinsælda í bænum um þessar mundir vegna knattspyrnunnar jafnvel þótt félagið hafi hvorki náð að landa Íslandsmeistaratitli í knattspyrnu karla né kvenna. Þó stóðu miklar væntingar til hvoru tveggja. Víkingur sigraði í karlaboltanum eftir 30 ára bið og Valur varð Íslandsmeistari kvenna eftir tveggja ára bið. Hinn aðilinn, sem oft er nefndur, er Jón Ólafur Halldórsson fyrrverandi forstjóri Olís. Hann er reyndur stjórnandi sem gæti fært með sér dýrmæta stjórnunarreynslu – sem ekki þykir veita af í sveitarfélögunum eins og staðan er nú eftir 14 prósent launahækkanir þeirra á síðustu 12 mánuðum á grundvelli síðustu kjarasamninga sem hafa farið úr böndunum, einkum hjá hinu opinbera og þá ekki síst sveitarfélögum.

Jón Ólafur gæti komið með trausta forystu inn í sveitarfélagið, yrði hann fyrir valinu. Karen Halldórsdóttir, systir hans, er í bæjarstjórn núna. Faðir hans, Halldór Jónsson verkfræðingur, hefur verið meðal virkustu sjálfstæðismanna í Kópavogi um árabil.

Margt bendir til þess að ólga sé víðar í röðum sjálfstæðismanna en í Reykjavík og Kópavogi, en þetta eru tvö langstærstu sveitarfélög landsins. Þegar liggur fyrir að atlaga verður gerð að Eyþóri í Reykjavík.

- Ólafur Arnarson