Verður Björn Zoega forstjóri Landspítalans á ný?

Ánægjulegt er að starf forstjóra Landspítalans skuli hafa verið auglýst laust til umsóknar. Mikilvægt er að nýta tímann vel og vanda valið, en skipað verður í starfið frá 1. mars 2022.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fengið gagnrýni frá stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum fyrir skamman umsóknarfrest, en starfið var auglýst föstudaginn 15. október og umsóknarfrestur rennur út rúmum tveimur vikum síðar, 1. nóvember. Samsæriskenningasmiðir voru fljótir að slá því föstu að umsóknarfrestur væri svo stuttur vegna þess að búið væri að ákveða hver skyldi hneppa hnossið.
Allt tal um að Svandís hyggist flaustra því af að ráða einhvern handgenginn sér í starfið er út í hött. Ætla má að ný ríkisstjórn taki við í kringum miðjan nóvember. Fráleitt er að gengið verði frá ráðningu í eitt flóknasta, viðamesta og vandasamasta starf, sem fyrirfinnst innan opinbera kerfisins, tveimur vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Augljóslega setur Svandís ferlið hratt í gang til að nægur tími verði fyrir vönduð vinnubrögð við val á nýjum forstjóra Landspítalans.
Þegar ný ríkisstjórn tekur við lætur Svandís Svavarsdóttir að líkindum af embætti heilbrigðisráðherra og við tekur Guðlaugur Þór Þórðarson. Það fellur því væntanlega í hans hlut að skipa nýjan forstjóra Landspítalans.
Björn Zoega var forstjóri Landspítalans 2010-2013 og sá sem bestum tökum hefur náð á því vandasama verkefni að stýra flaggskipi íslenska heilbrigðiskerfisins. Björn hefur starfað erlendis undanfarin ár og frá 2019 hefur hann verið forstjóri Karólinska sjúkrahússins í Svíþjóð – flaggskipi norræna heilbrigðiskerfisns – og náð undraverðum árangri bæði hvað varðar rekstur og faglega nálgun.
Fengist Björn Zoega til að snúa aftur á Landspítalann yrði það hvalreki fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Sómi yrði að, bæði fyrir þann ráðherra sem setur ferlið í gang og þann sem slær smiðshöggið á ráðninguna, ef tækist að fanga Björn í þetta lykilstarf. Ekki spillir fyrir að Guðlaugur Þór og Björn Zoega eru gamlir vinir og flokksfélagar.
- Ólafur Arnarson