Verður Ásgerður Halldórsdóttir síðasti bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi?

Nýbirt skoðanakönnun um fylgi flokka og traust á bæjarstjóra Seltjarnarness hlýtur að vera mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Fréttablaðið birti könnun fyrr í vikunni sem sýnir að fylgi flokksins er komið niður í 41 prósent og hefur aldrei mælst lægra. Og það sem verra er að einungis fjórði hver kjósandi á Nesinu lýsir yfir trausti á Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins. Hér er um nýjan veruleika að ræða því flokkurinn hefur haft ákaflega sterka stöðu í bæjarstjórn á Nesinu alveg frá upphafi. Valdaferill flokksins nær sjötiu ár aftur, allt frá því Seltjarnarnes varð sjálfstætt sveitarfélag en hafði áður verið hluti af Kópavogi. Flokkurinn hefur ekki misst völdin á Seltjarnarnesi í einn einasta dag á þessum sjötíu árum, allt frá því Nesið var hreppur sem breyttist í bæjarfélag en ávalt undir stjórn sjálfstæðismanna. Lengst af var Sigurgeir Sigurðsson við stjórnvölinn en hann lagði grunninn að uppbyggingu sveitarfélagsins á fjörtíu ára ferli sínum sem var einstaklega farsæll. Tími Sigurgeirs einkenndist af framkvæmdum, uppbyggingu og traustri fjármálastjórn.

Fylgi flokksins í kosningum hefur oftast verið yfir 60 prósent, bæði í tíð Sigurgeirs og eins eftir að hann lét af störfum bæjarstjóra árið 2002. Heldur hefur sigið á ógæfuhliðina hjá flokknum því í kosningunum 2014 hlaut hann 52,6 prósent greiddra atkvæða og vorið 2018 var fylgið komið niður í 46,3 prósent sem var það lakasta í sögunni og í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut ekki meirihluta greiddra atkvæða í sveitarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi. Ásgerður Halldórsdóttir leiddi listan og hélt meirihlutanum á 27 atkvæðum.

Strax í upphafi þessa kjörtímabils var óánægja tekin að krauma eins og atkvæðatölur sýna í sögulegum samanburði. Ýmsar ástæður voru fyrir óánægju kjósendanna en víst er að slök fjármálastjórn skipti miklu máli. Nú er svo komið að uppsafnaður hallarekstur á bænum nemur 600 milljónum króna sem þykir algerlega óviðunandi á mælikvarða þeirrar góðu stjórnunar sem einkenndi allan bæjarstjóraferil Sigurgeirs sem markaðist af myndarlegri uppbyggingu og miklum framkvæmdum samhliða traustri fjármálastjórn.

Að bæjarstjóri Seltjarnarness mælist einungis með 26 prósent traust kjósenda segir það eitt að komið er að tímamótum í stjórnun bæjarfélagsins. Tuttugu mánuðir eru til næstu kosninga og margt getur breyst á svo löngum tíma. En þeir sem þekkja til telja ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji gera þær miklu breytingar sem þarf til að rétta hlut sinn með afgerandi hætti. Þess vegna má ætla að tími Ásgerðar sé liðinn og einnig samfelldur valdatími flokksins á Seltjarnarnesi. Ekki þyrfti að koma á óvart að kjósendur teldu næstu kosningar rétta tímann til breytinga.

Þá hlotnaðist Ásgerði Halldórsdóttur sá vafasami heiður að verða síðasti bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Alla vega í bili. Með því félli traustasta vígi flokksins frá upphafi.