Veitingastaður í Hafnarfirði með áhugaverða nýjung: „Matseðill ónæmiskerfisins“

25. nóvember 2020
15:17
Fréttir & pistlar

Hafnfirski veitingastaðurinn A. Hansen hefur nú kynnt til leiks áhugaverða nýjung en nýr matseðill veitingastaðarins er flokkaður eftir hvaða matur er bestur fyrir hvaða blóðflokk. Um er að ræða „matseðil ónæmiskerfisins“ samkvæmt heimasíðu A. Hansen.

„Við hjá A.Hansen erum spennt fyrir þessari nýjung og vonum að gestir okkar verði það einnig,“ segir kokkurinn Silbene Dias á heimasíðunni en hann segist hafa kynnt sér kenningu Peter D‘Adamo sem „taldi að hver maður gæti styrkt ónæmiskerfið og viðhaldið betri heilsa með því borða samkvæmt eigin blóðflokki.“

Matseðlarnir eru flokkaðir eftir blóðflokk A, B, AB, og O. Við blóðflokk A stendur til að mynda að fólk sem er með þessa tegund blóðs þjáist af meltingarvandamálum þannig mælt er með minna af kjöti og meira grænmeti á meðan blóðflokkur B er sá eini sem þolir vel mjólk en fólk í þeim flokki ætti að forðast kjúkling.

Hægt er að nálgast matseðilinn í heild sinni á heimasíðu A. Hansen en óhætt er að segja að um sé að ræða öðruvísi nálgun en hjá öðrum veitingastöðum.