Veikur grunnur – miklar ályktanir

Fréttablaðið birtir í dag á forsíðu niðurstöður úr skoðanakönnun sem unnin var sl. mánudag og þriðjudag. Athygli vekur hve veikur grunnur er undir þessari könnun og hve miklar ályktanir eru samt dregnar.

Lítum á nokkrar tölur: Hringt var í 1.161. Það náðist í 797. Af þeim tóku 59.9% afstöðu eða 477 manns. Píratar eru stærstir að vanda með 31.8% sem segir að einungis 152 nefndu þá. Framsókn sem fékk 8,3% hefur samkvæmt þessu haft 40 fylgjendur í þessari könnun.

Af þessu agnarsmáa úrtaki draga menn svo víðtækar ályktanir, kalla til prófessor til að tjá sig um málið og meta það svo “að talsverð hreyfing sé á fylgi flokka.”

Þetta er varla boðlegt.  Nú þyrfti að fá alvöruúrtak og alvörukönnun til að mæla raunverulega stöðu flokka. 

Þá er vert að hafa í huga að könnun þessi var gerð í byrjun vikunnar – áður en Stundin birti hrikalegar fréttir af Tortólaviðskiptum ættingja Bjarna Benediktssonar sem munu væntanlega rýra traust kjósenda á honum enn frekar. Könnun nú mun vegna uppljóstrana Stundarinnar trúlega mæla Sjálfstæðisflokkinn mun lægri en hann er sýndur samkvæmt þessari veikburða könnun.