Veifaði íslenska fánanum í óeirðunum Vestanhafs: „Hann er Íslendingur“

Einn stuðningsmanna Donalds Trump í óeirðunum í Sacramento í gær veifaði íslenska fánanum. Illugi Jökulsson deilir myndum af viðkomandi á Facebook og fékk hann mikil viðbrögð.

Stuðningsmenn Trump voru æfir eftir að þingið samþykkti kjör Joe Biden í embætti Bandaríkjaforseta. Létu þeir í sér heyra í mörgum borgum og réðust þeir inn í þinghúsið í Washington DC. Margir veifuðu fánum, bæði til stuðnings Trump sem og herfána Suðurríkjanna.

„Þekkir einhver þetta gerpi? Er þetta íslenskt, eða bara einhver fáráður sem heldur að við séum æðri öðrum því við erum svo föl og langafar okkar sigldu á bátum til Grænlands?,“ spyr einn Fésbókarvinur Illuga. Nokkrir giska að viðkomandi sé mögulega fulltrúi Útvarps Sögu eða Miðflokksins, þá segir einn: „Franklínisti.“

Egill Helgason fjölmiðlamaður segir að þetta þarfnist skýringa, sjálfur deilir hann myndinni áfram á Facebook og segir: „Manni líst ekki alveg á þetta“

Illugi segir að viðkomandi sé Íslendingur:

„Hann er Íslendingur, hann er nokkrum sinnum kallaður Iceland á myndbandinu.“