Vara­þing­maður vill lista yfir þá sem fóru á Ingó í gær: „Svo ég geti forðast þá“

Val­gerður Árna­dóttir, vara­þing­maður Pírata, virðist hvorki vera hrifin af tónleikagestum né tón­leikum sem Ingólfur Þórarins­son, betur þekktur sem Ingó veður­guð, hélt í gær, að minnsta kosti ef marka má nýjasta tíst Val­gerðar.

„Ég væri alveg til í að fá lista yfir þá sem mættu á Bingó Veður­prump í gær svo ég geti forðast þá…,“ skrifar Val­gerður á Twitter.

Ingó hefur verið fjarri sviðs­ljósinu í tæp­lega tvö ár eftir að á­sakanir um kyn­ferðis­of­beldi og á­reitni á hendur honum voru settar fram opin­ber­lega. Hann hefur sjálfur vísað þessum á­sökunum al­farið á bug.

Ingó hóf að selja miða á ferna tón­leika fyrir skemmstu, en þetta er í fyrsta skipti sem hann kemur fram opin­ber­lega á tón­leikum síðan á­sakanirnar voru lagðar fram.

Tvennir tón­leikar voru haldnir í gær­kvöldi og verða tvennir tón­leikar haldnir í kvöld í Stóra salnum í Há­skóla­bíó.

Með tísti Valgerðar fylgdi myndskeið sem tekið var upp á tónleikunum gær og hefur farið eins og eldur um sinu samfélagsmiðla og vakið talsverða reiði. Í myndskeiðinu má sjá tvo menn sem mættu á tónleikana og viðhefur annar þeirra vægast sagt ófögur ummæli.

„Nú erum við mættir hérna á Ingó... en nú erum við sáttir með það að femínistadruslurnar, að þær eru ekki hér. Nú erum við bara femínistalausir í tvo klukkutíma. Skál fyrir því,“ má heyra í myndskeiðinu.

Ólöf Tara, ein þeirra sem stendur að baki Öfgum, setur einnig athugasemd við myndskeiðið.

„Miðbærinn aldrei verið jafn öruggur rétt fyrir, rétt eftir og á meðan tónleikarnir eru í gangi,“ skrifar Ólöf Tara.

Fleiri fréttir